Flensan að baki – næstum því.

Þá er maður nú sæmilega búinn að afgreiða þessa fjárans flensu. Ég er búin með fúkkalyfið sem ég fékk og komin á fætur. Röddin er meira að segja að verða eðlileg. En, mikið ferlega er maður samt slappur. Nú bíð ég bara eftir því að komast út að ganga, ætli ég þori það þó fyrr en eftir helgina.

Í gær vissi ég að Guðbjörg ætlaði að fara með Karlottu og Odd Vilberg í Kópavoginn til pabba síns þar sem þau ætluðu að vera um helgina.

Veðrið í gær var svo einstaklega fallegt og þar sem ég hef ekki komið út alla vikuna þá datt mér í hug að við Haukur færum með krakkana í bæinn. Ég gæti alveg eins setið í hlýjum bíl eins og að vera hérna heima. Það varð sem sé úr að við skruppum í bæinn. Það var mikil tilbreyting að komast aðeins í annað umhverfi. Þegar við vorum komin í Kópavoginn og búin að skila börnunum var ég ekkert tilbúin að fara beint austur aftur eins og ákveðið hafði verið í upphafi. Nei, heldur ákvað ég, eins og litlu börnin gera gjarnan, að prufa hvað ég kæmist langt með gæslumann minn og stakk upp á því að við kíktum til tengdamömmu og Ingabjörns, þau væru nú í Kópavoginum líka og það væri fráleitt að ég smitaði neitt eftir að liggja í viku og svo væri nú hvílíkt rjómaveður. Þetta virkaði eins og hjá litlu börnunum og ég fékk vilja mínum framgengt. Þegar við höfðum drukkið kaffisopa hjá þeim þá var strikið tekið beint austur án þess að gefa mér kost á fleiri tillögum. Ég held nú bara að þetta hafi hresst mig, allavega held ég að ég hafi ekkert skaðast af þessu ferðalagi.

Guðbjörg og Magnús Már komu aðeins við eftir hádegið í dag en þau voru á leið í bæinn til að halda uppá það með fjölskyldu Magnúsar í kvöld, að Birkir bróðir hans var að útskrifast úr lagadeild HÍ.
TIL HAMINGJU BIRKIR!

Í kvöld kom svo Dana María, afastelpa Hauks og borðaði með okkur kvöldmat.

Nú er hinsvegar komið að því að vera þæg og koma sér í rúmið fyrir miðnætti til að vakna enn frískari í fyrramálið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Flensan að baki – næstum því.

  1. Þórunn says:

    Mikið er ég fegin að heyra að þú ert búin að vinna bug á flensunni, en vertu nú þæg og farðu vel með þig, það borgar sig.
    Þú ert heppin að hafa Hauk til að passa upp á þig.
    Bestu kveðjur frá Portúgal

  2. Birkir says:

    Með lögun skal landa brugga…
    Heil og sæl.
    Þakka hamingjuóskirnar. Þú lætur mig svo bara vita ef þú lendir í einhverju málavafstri. Bestu kveðjur – Birkir.

  3. Ragna says:

    Enn einn góðan.
    Þakka þér fyrir Birkir. Ég reyni að hafa hægt um mig. En mikið er nú gott að eiga enn einn góðan að ef í harðbakka slær.

Skildu eftir svar