Miðlunardgur.

Mikið er nú gott að komast inn í rútínuna aftur. Ég fór til sjúkraþjálfarans míns í morgun en hann er líka búinn að liggja í flensu og fékk hastarlega lungnabólgu upp úr öllu saman.

Ég sótti svo Karlottu í dansinn í skólanum og við fórum saman á bókasafnið, náðum okkur í bækur og skoðuðum sýningu á alls konar handprjónuðum vettlingum. Ég gat sýnt Karlottu hvernig svörtu og hvítu rósavettlingarnir sem amma mín prónaði mikið handa okkur í gamla daga, litu út. Síðan fórum við niður í listagalleríið og skoðuðum málverkasýningu sem þar er. Eftir bókasafnsheimsóknina lá leiðin yfir í Nóatún þar sem ég keypti mér Angelicu sem ég ætla að prufa að taka inn. Haukur tekur þetta alltaf inn og verður aldrei misdægurt svo ég ætla að sjá hvort þetta virkar eins vel á mig. Svo voru mjög girnilegir snúðar þarna sem ömmu fannst tilvalið að kaupa handa gestinum sínum.

Þegar við komum heim í Sóltúnið og vorum búnar að fá okkur að drekka þá fórum við að skoða krossgátubók með alls konar þrautum. Við vorum lengi að finna út úr stafarugli þar semm kenndi margra grasa í orðavali svo sem sveinsstykki, réttskeið o.fl.. Nú er Karlotta með það alveg á hreinu hvað þessi orð merkja og einnig merkingu á mörgum fleirum sem við fundum út úr stafaruglinu.

Að hugsa sér hvað ég er heppin að hafa tækifæri til þess að fá að miðla ýmissri þekkingu, sem amma gamla lumar á, til ungviðisins. Karlottu fannst þetta líka svo skemmtilegt að hún var ekki tilbúin að fara um fjögurleitið þegar mamma kom að sækja hana. Það varð því úr að hún fengi að vera áfram hjá ömmu og amma klók, krækti sér í matarboð í staðinn. Nú er Karlotta að lesa það sem hún tók á bókasafninu og ég pára þessar línur á meðan og síðan förum við báðar til að borða í Grundartjörninni.

Góður og sólríkur dagur brátt á enda. Ég þakka fyrir mig.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Miðlunardgur.

  1. langafi says:

    Hvað…
    Hvað ungur nemur, gamall temur.

  2. afi says:

    Leitt að heyra um veikindi þín. Gott að þú skulir vera komin á ról.
    Barnakrossgátublöðin eru stór sniðug og eru vinsæl í ömmubæ.

Skildu eftir svar