Framhaldssaga úr Þegjandabæ

Já, enn þegir konan í Þegjandabæ. Fyrst var hún þegjandi hás en nú er hún alveg þögnuð. Ætli forsjóninni hafi fundist hún eitthvað hafa misnotað röddina sína og talað of mikið í gegnum tíðina? Kannski gripið til þessa ráðs til að þagga svolítið niður í henni. Það skyldi þó ekki vera.

Það er búið að breyta eitthvað sjúklingakvótanum sem hver læknir hefur hérna á Selfossi þannig að nú má heimilislæknir bara hitta svo og svo marga þann daginn. Mér skilst að þetta séu einhverjar nýjar reglur varðandi heilsugæslustofnanir

Haukur hringdi fyrir mig á miðvikudaginn til að panta tíma hjá heimilislækninum því sjálf hefði ég bara getað andað í símann og það er víst bannað. Svarið sem hann fékk var "Það er enginn tími laus ÚT ÞENNAN MÁNUÐ". Hallo! Það lá við að ég sendi heilbrigðisráðherra póst og spyrði hvort þetta væri forsvaranlegt. En hvað gerði konan? Notaði sér auðvitað blessaða tölvutæknina og sendi lækninum E-mail. Það kom svar innan nokkurra mínútna þar sem hann sagðist vilja hitta mig á læknavaktinni (við höfum þó sem betur fer læknavaktina frá 16:00 – 20:00).
Þegar til kom þá hafði nú Egill orðið að fara í burtu en ég hitti á svo fínan lækni í staðinn. Eftir góða skoðun sagði hann mér að ég hefði auk astmans, fengið slæma veirusýkingu ofaní bakteríusýkingu og þetta allt sett ónæmiskerfið alveg út af laginu. Honum fannst þó mjög einkennilegt að ég væri ekki orðin góð eftir öll þau lyf sem ég hef verið að taka í meira en tvær vikur. Hann hræddi mig með því að segja mér að ég hefði samkvæmt því sem venjan væri, átt að fá röddina aftur eftir fyrsta sólarhringinn á fjárans barkasterunum. Af hverju getur maður ekki bara verið venjulegur og læknast á fyrsta sólarhring eins og til er ætlast.

Eftir þennann pistil mætti halda að ég væri alveg lögst í þunglyndi en verið alveg róleg geðheilsan er í fínu lagi þó ég sé auðvitað ekki ánægð með gang mála.

Næst verð ég vonandi með góðar fréttir.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Framhaldssaga úr Þegjandabæ

  1. Magnús Már says:

    Sólskríkjan
    Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
    sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
    Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
    svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
    og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein –
    ó ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

  2. Ragna says:

    Já, Magnús minn gott er að láta sig dreyma.

  3. afi says:

    Við bíðum bara spennt eftir góðu fréttunum.

Skildu eftir svar