Verðstríðið.

Þar sem ég hef hugsað mér að koma ekki með persónulegar fréttir úr Þöglabæ fyrr en ég hef góðar fréttir, þá verða engar slíkar í þetta sinn. En, það er jú nýr dagur á morgun og hver veit hvað hann ber í skauti sínu – vonandi eitthvað gott.

——————–

Ég ætla hinsvegar aðeins að leggja orð í belg um þetta verðstríð sem hefur geysað hér eins og annars staðar. Það er svo sem allt gott um það að segja að fara út í búð og fá mjólkina á 1 krónu og epli og appelsínur á 9 krónur. Mér finnst nú í aðra röndina verið að gera grín að okkur neytendum. (Þeir tóku vel á þessu með mjólkina Spaugstofumenn í kvöld).

Hvernig stendur á því að stórmarkaðirnir geta gefið okkur vörur í marga daga? Ástæðan skyldi þó ekki vera sú að þeir séu búnir að selja okkur vörurnar sínar á hvílíku yfirverði í svo langan tíma að þetta sé ekki meira fyrir þá en okkur hin sem förum með gamla brauðmola til að gefa bra,bra.

Ef stórmarkaðirnir telja sig geta gefið okkur vörurnar svona þá hefðu þeir líklega einnig bolmagn til þess að lækka þær meira til okkar að staðaldri. Þeir gætu t.d. í stað þess að henda umframbirgðum af ávöxtum og grænmeti, sem skemmist af því fólk hefur ekki efni á að kaupa það, lækkað verðið til okkar alla jöfnu.

Mér finnst varla hægt að kalla þessa vitleysu undanfarinna daga samkeppni. Á mánudag verður örugglega allt um garð gengið og vörur stórmarkaðanna fara á sama yfirverð og þær hafa verið á fram að þessu – eða kannski aðeins hærra til að vinna upp gjafmildi síðustu daga.

Finnst engum nema mér að það sé verð að gera grín að okkur?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar