Nafnabreyting.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ef maður færir dagbók þá eigi maður að gera það reglulega. Ég ætla því að hætta að vera að hótast eitthvað hérna við dagbókina mína um að skrifa ekki í dagbókina úr Þöglabæ fyrr en ég hafi góðar fréttir af heilsufarinu. Ég er sem sé ennþá nær mállaus og tek inn urmul af lyfjum eða kannski réttara sagt ólyfjum. En, eitt er nú að þurfa að reyna að þegja innan um annað fólk – sem er eins og gefur að skilja mjög erfitt fyrir konu sem alltaf þarf að gjamma. Hitt ætti að vera óþarfi að þegja líka á vefsíðunni sinni. Ég bara nenni því ekki lengur. Ég hef því ákveðið að breyta nafninu úr Þöglabæ í Bjartsýnisbæ.

Helgin var mjög fín. Á laugardaginn fór ég með Guðbjörgu og Magnúsi Má í Blómaval og síðan á Kaffi Krús sem reyndist vera eina litla kaffihúsið hérna á Selfossi. Okkur fannst einhvernveginn ekki koma til greina að fara á Hótelið, eitthvað of formlegt, en komumst að því að það vantar alveg lítið sætt kaffihús hérna, sem ekki er með stæka reykjarlykt út úr dyrum. Það er nefnilega gallinn við Kaffi Krús hvað það er mikil reykingalykt en hinsvegar eru ostakökurnar mjög góðar hjá þeim. Þetta braut þó allavega upp daginn og var gaman að komast aðeins út á meðal fólks.

Á sunnudaginn var svo frænkuhittingur hjá Vilborgu systurdóttur minni. Ég fór með Guðbjörgu í bæinn. Við byrjuðum á því að hitta Sigurrós og röltum saman mæðgurnar í gegnum IKEA. Ég freistaðist auðvitað til að versla smá dúllerí en var annars ótrúlega þæg.

Síðan var brunað í Mosfellsbæinn til Vilborgar í frænkuhittinginn. Hún tók á móti okkur af miklum myndarskap, var búin að útvega kerti og tilheyrandi til þess að kenna okkur að skreyta kertin með því að líma á þau servíettur. Þetta var einfalt og mjög skemmtilegt. Nú eigum við allar þessi líka fínu kerti til að punta upp með á páskunum. Svo ber auðvitað að geta þess að veitingarnar voru ekki af verri endanum, nema fyrir það hvað maður borðaði mikið af þeim.

Við erum svo ánægðar með að hafa komið þessum frænkuklúbb á laggirnar fyrir nærri 10 árum því hann styrkir svo vel tengslin milli okkar allra. Það er líka svo gaman fyrir okkur ættmæðurnar að fá að vera með yngri ættliðunum – þetta hjómar eins ég sé 100 ára, en tilfellið er að við erum þrír ættliðir að hittast. Tilfellið er bara það að við erum allar stelpur bara á mismunandi aldri.

Ég dreif mig nú aftur austur með Guðbjörgu eftir frænkuboðið en þurfti svo að fara aftur í bæinn í gær til að hitta lækni. Hann breytti aðeins út af lyfjameðferðinni, tók út og bætti við en var ánægður með hvað öndunin var orðin eðlileg og á mynd voru lungun í lagi . Málleysið hinsvegar vill hann að hálslæknir athugi svo það gerir aðra ferð í bæinn í þessari viku.

Eftir læknisheimsóknina fór ég í heimsókn til hennar Eddu minnar Garðars og við áttum góða stund saman. Þó maður eigi góða vini þá er ekkert sem jafnast á við að eiga svona góða æskuvinkonu eins og ég á í Eddu.

Ég var svo komin hérna austur um kvöldmatarleytið og brunaði beint til Guðbjargar sem var búin að bjóða mér í mat.

Ekki löngu eftir að ég kom hérna heim þá kallaði Edda systir mín í mig og skrapp ég aðeins yfir til hennar.

Mikið er nú gaman að vera til á svona góðum dögum.

Ekki spillir svo dagurinn í dag það er svo fallegt gluggaveðrið. Sólin baðar hér allt innanhúss svo maður er hlaupandi um með tuskuna og sér alls staðar ryk. Ef eitthvað er þá hitar blessuð sólin helst til mikið og það liggur við að maður þurfi að vera í strandfötunum sínum hérna á stjáklinu innanhúss. Nú ætla ég hinsvegar að dúða mig upp og skreppa aðeins út í búð. Ég hef nú á tilfinningunni að hitamunurinn verði ansi mikill á inni og úti.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Nafnabreyting.

  1. Þórunn says:

    Bjartsýni er margfalt betri en þögn
    Mikið er gaman að sjá svona umskipti, úr veikinda-leiða í bjartsýni og finna hvað lífið getur verið fallegt og gott, þó maður sé lasinn. Ég er viss um að nú fer þér að batna. Makalaust þetta með sólina og rykið, það er eins og hún sé að benda manni á að hér og þar þurfi að þrífa, líka í Portúgal.

  2. afi says:

    Þú lætur ekki deigan síga. Sama verður ekki sagt um grákollinn. En þú kemst greinilega langt á bjartsýninni.

  3. Magnús Már says:

    Afstaða
    Hamingjusamur einstaklingur býr ekki við ákveðnar aðstæður heldur að ákveðinni afstöðu. Gott hjá þér tengdó mín kæra að skipta um gír.

  4. Ragna says:

    Var ég búin að gefa ykkur þá mynd af mér að ég væri bara komin niður í þunglyndi út af málleysinu. Sem betur fer er það nú ekki reyndin því mér hefur verið gefið skap sem hjálpar mér að gera létt grín að sjálfri mér og mínum aðstæðum og það hefur í gegnum tíðina fleytt mér yfir ótrúlegustu erfiðleika.
    Þakka ykkur mínum dyggu meðbloggurum, góðar kveðjur og umhyggju.

Skildu eftir svar