Máttarvöldin hjálpleg.

Máttarvöldin spiluðu stóran þátt í lífi mínu í dag.

Ég þurfti að fara í bæinn til þess að hitta blessaðan hálslækninn. Eftir nákvæma skoðun þá sagði hann mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að vera með krabba eða æxli. – Ég horfði nú bara á hann og sagðist hafa verið svo vitlaus að mér hefði nú ekki dottið það í hug. En, raddböndin eru ekki í góðu lagi eftir þetta vírusvesen allt og ef ég verð ekki góð innan mánaðar þá þarf ég að fara til talmeinafræðings og læra að nota raddböndin upp á nýtt. Nú bara vona ég að þetta smá komi á þessum komandi mánuði svo ég þurfi ekki að fara margar ferðir til Reykjavíkur til að læra að tala. Ég gæti sem sagt þurft að byrja aftur á frumbernskunni 🙂

Það sem ég ætlaði að segja ykkur um máttarvöldin kemur þó lækninum ekkert við. Ég var svo heppin að Haukur er fyrir austan núna og hann tók ekki annað í mál en fara með mér í bæinn í morgun. Við fórum bara á litla Pólónum mínum því það var spáð hreti og hann er á nagladekkjum ennþá. Ferðin í bæinn gekk ágætlega þó voru blind él á leiðinni.

Á leiðinni heim komum við hinsvegar í brekkuna við Skíðaskálann og þar var algjör martröð í gangi. Bílar voru þvers og kruss í ofsaroki, hálku og byl og við sáum þá snarsnúast og hreinlega þeytast út í loftið. Á undan okkur var stór jeppi sem stoppaði og Haukur náði að stoppa líka. Þá ætlaði jeppinn að snúa sér eitthvað á veginum til að reyna að komast í var fyrir þeim sem komu úr austurátt og þeyttust á þá sem fyrir voru. Hann var ekki heppnari en svo að bíll kom á fleygiferð úr austurátt, bremsaði og hentist á jeppann og bretti og eitthvað fleira rifnaði af jeppanum og yfir þakið á bílnum okkar. Á þessum tímapunkti hélt ég að okkar síðasta væri framundan því ég sá fólksbílinn og jeppann stefna beint á bílinn hjá okkur. Það var þarna sem máttarvöldin gripu inní því jeppinn staðnæmdist millimetrum frá okkur. Haukur gat bakkað í var við stóran trukk með aftanívagni og við sluppum algjörlega en eftir þetta sáum við enn annan bíl koma fljúgandi, snarsnúast og lenda einhversstaðar útaf. Ég bara þakkaði Guði fyrir að ég var ekki ein á ferð og að ekkert skyldi koma fyrir okkur. Mér sýndust allir sem þarna voru vera með beyglur og skrámur eða lenda útaf. Ég held ég hefði bara fengið taugaáfall ef ég hefði verið undir stýri sjálf. Haukur var hinsvegar rólegur og gerði enga vitleysu.

Ég sá í fréttum Sjónvarpsins að 10 bílar hefðu lent í árekstrunum. Hellisheiðin var lokuð vegna þessa fram á kvöld því það hefur verið mikil vinna að koma öllum þessum stórsködduðu bílum í burtu. Mér fannst hinsvegar annað kraftaverk að ekki hafi orðið stórslys þarna þó slys yrðu samt. Á leiðinni áfram yfir heiðina mættum við öllum lögreglu- og sjúkrabílaflota Selfoss á leið á slysstað svo það hafa fleiri haldið að margir væru stórslasaðir.

Mikið er nú yndislegt að upplifa að það er einhver/eitthvað sem heldur verndarhendi yfir manni þegar maður lendir í slíkum háska.

Ég hef alla vega þakkað fyrir mig.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Máttarvöldin hjálpleg.

  1. Magnús Már says:

    Gott er að eiga hauk í horni.

  2. Þórunn says:

    Þessi saga er aldeilis ótrúleg og mikil mildi að enginn slasaðist. Já, það er sannarlega þakkarvet að finna sig undir verndarvæng Almættisins.

  3. Edda systir says:

    heppin
    Þið hafið aldeilis verið heppin. Einhver hefur hadið sinni verndarhendi yfir ykkur.

  4. afi says:

    Guð og lukkan
    Það er alls ekki ónýtt að eiga Guð og lukkuna að vinum. .. Og alltaf er gott að eiga Hauk í horni. Annars voru þið ótrúlega heppin. Þarna hefur hurð skollið nærri hælum. Vonandi fer svo að rætast úr raddleysinu.

Skildu eftir svar