Komin heim aftur.

Þá er ég komin heim eftir fimm yndislega daga í Englandi. Ensk vinahjón mín, sem ég kynntist fyrst þegar við Oddur heitinn bjuggum í Englandi í tvö ár með Guðbjörgu þá 3 – 5 ára, buðu okkur að koma til sín í heimsókn.


Angela tók á móti okkur á flugvellinum og við fórum smá rúnt til Byfleet þar sem við bjuggum á árinum 1975 – 1976. Nú eiga Angela og Alick hinsvegar heima í Woodham sem er mjög nálægt. Daginn eftir fórum við Guðbjörg með lestinni til Guildford en það er mjög fallegur háskólabær. Um kvöldið fórum við síðan í leikhús og sáum Blood-brothers. Mjög fínn söngleikur.  Á laugardeginum fórum við með þeim hjónum í bíltúr niður að strönd  í námunda við Portsmouth annars vegar og Chichester hins vegar. Þessi staður heitir Bosham. Við drukkum kaffi í litlu kaffihúsi við ströndina og fórum í göngutúr um þetta litla fallega þorp, síðan ókum við smáspöl og borðuðum „lunch“ á gamalli sveitakrá þar sem við sátum úti og horfðum út á sjóinn. Um kvöldið fórum við svo í grillveislu til Jean, en hún og Angela hafa verið vinkonur frá unglingsárunum. Í þessari grillveislu voru líka vinir úr badmintonhópnum þeirra.


Á sunnudaginn vorum við heima í rólegheitunum og nutum sólar og gróðurs í garðinum en síðan buðu þau okkur út að borða um kvöldið. Svo var aftur grillað á mánudagskvöldið þegar vinur þeirra kom í heimsókn. Hann var mjög skemmtilegur og það er langt síðan ég hef hlegið svona mikið.


Á þriðjudeginum fór Angela með okkur Guðbjörgu í bíltúr niður að Boxhill. Þetta er einn af þeim stöðum sem við Oddur fórum oft á um helgar til að fara í göngutúra og til að njóta útsýnisins, en þarna sér maður yfir margar sveitir og þorp. Um sexleytið kom svo Alick heim úr vinnunni og þá óku þau með okkur á flugvöllinn. Þar gekk allt greiðlega fyrir sig og ferðin heim gekk vel.


Í þessari ferð létum við London alveg eiga sig. Við vorum sammála um að tíma ekki að fara úr afslappaða „sveitaumhverfinu“ í stórborgarysinn. Það verður bara gert í sérferð einhverntíman seinna.


Lýkur þá frásögn minni af þessum yndislegu fimm dögum í Englandi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Komin heim aftur.

  1. Sigurrós says:

    Heppnar
    Þið eruð eiginlega heppnar að vera komnar heim og hafa ekki lent í að vera strandaglópar á Heathrow eins og hinir 100.000 sem sátu fastir síðustu daga sökum verkfalls .

Skildu eftir svar