Barnabarnahelgi.

Góð helgi að baki. Homopata-trompið er enn að virka. Það má segja að ég geti allt nema syngja. Það var alla vega álit Karlottu í dag þegar við vorum að hlusta á frábæra diskinn með Vagnsbörnum frá Bolungarvík og amma tók sig til og fór að taka lagið með, þá kom þetta: "Amma, röddin þín er nú svona eiginlega alveg komin en söngurinn er ekkert sérstaklega fallegur".
Bragð er að þá barnið finnur því háu nóturnar eru sem sé talsvert rámar ennþá. Amma kann sér bara ekki læti að röddin skuli komin aftur og langar að fara að syngja af gleði.

Systkinin Oddur og Karlotta voru líka hjá ömmu í gær. Það var alveg tilvalið því mamman var að setja gólfflísar á eldhúsgólfið og Magnús Már að vinna við ritgerð. Við fórum á Hótel Selfoss um miðjan daginn því það var sýning hjá "Free style" hópnum sem Karlotta dansar með. Það var mjög skemmtilegt en myndirnar sem ég tók voru meira og minna ónothæfar því það var svo dimmt í salnum að flassið bara náði ekki að lýsa upp það sem var að gerast á gólfinu. Það er alla vega mín skýring á málinu en kannski var myndasmiðurinn bara ekki nógu klár.

Ég skrapp svo í Grundartjörnina í morgun og rændi Karlottu með mér aftur í Sóltúnið. Oddur var hinsvegar kominn til vinar síns. Við erum svo búnar að dunda okkur við að ráða krossgátur og Karlotta föndraði síðan á meðan ég var að strauja. Svo var nú aldeilis veður til þess að fara út á pall og sippa. Svo komu þau hin úr Grundartjörninni í kvöldmat þegar Guðbjörg var svona að mestu búin að flísaleggja, en það má ekki stíga á flísarnar fyrr en á morgun. Það er ekki auðvelt að standa í matargerð þegar ísskápurinn er inni í stofu, kaffivélin frammi í þvottahúsi, uppþvottavélin frammi í gangi og ekki má stíga á eldhúsgólfið. Já, ég er svo ánægð að vera nálæg og geta stundum rétt hjálparhönd. Sigurrós mín og Jói þyrftu bara að flytja á Selfoss líka.

Ég ætla nú að fara fyrr að sofa í kvöld en í gærkvöldi. Ég sat límd yfir að horfa á kvikmyndina "Pearl Harbour" í sjónvarpinu en hún var til klukkan rúmlega tvö í nótt. Myndin var svo spennandi að loksins þegar hún var búin þá var ég svo uppspennt að ég þurfti að lesa lengi áður en nokkur syfja gerði vart við sig. Ekki alveg nógu gott.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Barnabarnahelgi.

  1. Sigurrós says:

    Ég segi þá bara á móti, þið þyrftuð að flytja í Kópavoginn.
    Það er gott að búa í Kópavogi 😉

  2. Magnús Már says:

    Kópavogur???
    Það er gott að búa í Kópavogi segja þau Gunnar Birgisson, Sigurrós og jafnvel hún Leoncie. En ég segi: Það er betra að búa á Selfossi vegna þess að á þessum stóru stöðum er maður eins og krækiber í ….. en á litlu stöðunum er maður virkilega sýnilegur.

  3. Þórunn says:

    Þetta voru góðar fréttir, ég óska þess að röddin fari batnandi, svo að þú getir sungið eins og engill um næstu helgi.

  4. afi says:

    Mikið er nú gott að þú hafir fengið röddina aftur. Styttist vonandi í söngröddina líka.

Skildu eftir svar