Komin heim aftur.

Það er búið að vera heilmikið að gera hjá mér síðustu tvo daga. Ég fór í bæinn á þriðjudag og leit fyrst inn hjá Lofti, síðan hitti ég Eddu mína Garðars í Kringlunni í hádeginu. Við fórum inn á notalegt kaffihús, Café Roma sem er á móti Eymundsson og fengum okkur súpu og brauð. Auðvitað spjölluðum við heil ósköp enda ekkert vandamál núna þegar röddin er orðin svona líka fín. Okkur var þó takmarkaður tíminn því næst á dagskránni hjá mér var að hitta Jakob sjúkraþjálfara og síðan lá leiðin upp í Mjódd í smá læknisstúss.

Ég náði líka að líta aðeins inn til tengdamömmu og Ingabjörns. Ég skellti mér svo undir kvöld í Hafnarfjörðinn en þar var nú tómlegt, eins og ég vissi reyndar, því Haukur var í vinnusyrpu og var á kvöldvakt. Það var samt gott að komast aðeins þangað og slaka á eftir daginn.
En dagurinn var nú ekki alveg á enda því um kvöldið fór ég til svo Sigurrósar og Jóa. Oh, Það var svo gaman að koma til þeirra ég fékk að kíkja á brúðkaupsdótið sem Sigurrós hefur verið að smá viða að sér og skoða boðskortið sem þau hafa hannað sjálf og Sigurrós teiknað. Svo var dekrað við mig með nýbökuðum vöfflum með jarðaberjum og rjóma.

Ég gisti síðan í Hafnarfirðinum og fór svo morguninn eftir út á Seltjarnarnes til Birgit, þar var líka dekrað við mig með nýju brauði, salati og nýbökuðum eplaskífum. Síðan lá leiðin til Jakobs sjúkraþjálfara í liðlosun og nálastungur öðru sinni á þessum sólarhring.

Að því loknu fannst mér nú vissara að taka strikið beint austur yfir fjall aftur, áður en fleiri kaloríufreistingar yrðu á vegi mínum. Það er nefnilega stórhættulegt að fara í svona heimsóknarferð því maður raðar í sig góðgæti alveg út í eitt. Eins gott að komast aftur í vatnsleikfimina og á fína stigtækið sem ég var að fá til að geyma fyrir Guðbjörgu (vonandi sem lengst). Ég er svona að ná að halda það út á tækinu í eitthvað yfir fimm mínútur í einu án þess að leka alveg niður. Fyrst náði ég varla meira en mínútu þá var ég örmagna. Þetta er mjög góð leið til að þjálfa hendur, fætur og lungu og til að ná upp orku. Nú getur maður stokkið í auglýsingahléunum í sjónvarpinu og tekið nokkur stig á tækið. Margt smátt gerir eitt stórt – ekki satt?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar