Frábært framtak.

Mér var boðið á danssýningu í íþróttahúsinu í Vallaskóla í morgun. Þetta er í annað skiptið sem ég er viðstödd svona sýningu en allir nemendur skólans sýna hvað þau hafa lært í danstímum í vetur. Áhuginn leyndi sér svo sannarlega ekki og gaman að sjá að strákarnir voru ekkert síður áhugasamir en stelpurnar. Greinilega breyting frá því sem var hér áður fyrr þegar strákunum þótti allt svona asnalegt.

Myndirnar (hér getið þið séð þær allar) gætu hinsvegar verið betri. Ég er búin að sjá að það er sama hvaða stillingu ég nota á vélina mína hún tekur bara góðar nærmyndir en strax og fjarlægðin er orðin einhver þá er illt í efni. Ég var nú að reyna að draga að með litlu aðdráttarlinsunni en þá verða myndirnar bara enn óskýrari. Ég ætla samt að sýna ykkur nokkrar myndir þó þær séu ekki betri en þetta. Karlotta er vinstra megin í hægri hringnum í galla með gulri rönd og með gult í hárinu (myndin stækkar við að smella á hana).

Svo var það rúsínan í pylsuendanum þegar kennararnir voru kallaðir upp til að sjá hvort þeir hafi lært eitthvað í dansinum. Ég sá ekki betur en að þeir stæðu sig með prýði, allavega ætlaði þakið að fjúka af húsinu því fagnaðarlætin voru svo mikil.
En hvar eru karl-kennararnir???

Guðbjörg er fremst fyrir miðri mynd, berhandleggjuð í röndóttum bol.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Frábært framtak.

  1. Þórunn says:

    Dansinn
    Já það er bæði skemmtilegt að dansa og eins að horfa á aðra gera það. En er ekki alveg stórkostleg þessi tíska drengjanna að vera með ullarhúfur á höfðinu við dansiðkun? Tískan er ýmist í ökla eða eyra.

  2. Ragna says:

    Ullarhúfurnar
    Það var nú ekki ósk krakkanna í þessum hópi að vera með ullarhúfur heldur átti þetta að vera tenging við gamlan dans sem þau voru að dansa. Fyrst stóð til að þau dönsuðu í lopapeysum en síðan urðu húfurnar fyrir valinu.

  3. Sigurrós says:

    Fyndið, ég hefði einmitt líka haldið að þetta væri bara persónuleg tíska drengjanna – það hefði ekkert komið manni á óvart 🙂

  4. Ragna says:

    Einmitt. Ég veit þetta bara af því að Bjarki hans Magnúsar var í þessum hópi svo ég fékk söguna frá fyrstu hendi.

Skildu eftir svar