Saumaklúbbur og Eurovision að baki.

Jæja, þá þurfum við ekki lengur að velta vöngum yfir því í hvaða húsakynnum við getum haldið Eurovision á næsta ári. Hvort Egilshöll myndi duga eða hvort við þyrftum hreinlega að byggja nýtt Eurovisionhús. Spurning okkar var reyndar ekki hvort? heldur hvar við hefðum keppnina. Við vorum nefnilega enn einu sinni svo sigurviss, með allra besta lagið sem allir vissu að yrði númer eitt. Vitaskuld kom því ekki annað til greina en að sjá það fyrir sér að við myndum halda Eurovision með glæsibrag að ári því það er jú okkar stíll að vera ekki eftirbátur annarra.

Svona leit nú tilvera okkar Íslendinga út alveg fram til klukkan níu í gærkveldi. Vitanlega myndum við vinna þessa keppni. Hvort við kæmumst í aðalkeppnina var einfaldlega ekki spurning sem þurfti að velta fyrir sér – bara formsatriði á leið okkar til sigurs.

En, nú er komið í ljós að við þurfum ekki að vera með frekari vangaveltur. Málin leystust nefnilega á mjög óvæntan hátt – VIÐ DUTTUM ÚT ÚR KEPPNINNI – Alveg ótrúlegt.

Við vorum hérna samankomnar saumaklúbbs"stelpurnar". Ekki af því að við værum með Euruvisionkvöld heldur hittist nú bara svona á að við vorum búnar að ákveða að hafa síðasta saumaklúbb vetrarins þetta kvöld og við vorum ekkert að breyta því þó það kæmi í ljós að það væri á því kvöldi sem keppnin væri.
Þær komu brunandi yfir Hellisheiðina til að verða nú komnar í tæka tíð til að sjá Selmu og síðan horfðum við svona með öðru auganum á hin lögin á meðan við snæddum kvöldverðinn. Svo komu úrslitin sem enginn átti von á. Síðan komu vangavelturnar. Hvernig gat þetta gerst? Voru það búningarnir? (sem allar voru sammála um að væru verulega hallærislegir). Eða eru austantjaldsþjóðirnar að taka völdin í Eurovision? Alla vega var lagið gott og vandist vel, frammistaða hópsins okkar góð en nú er bara spurningin hvað kom fyrir?

Sáu ekki aðrar þjóðir að við vorum best!!! ?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Saumaklúbbur og Eurovision að baki.

  1. afi says:

    Þrátt fyrir allt virtist sem Selma hafi haldið sig við jörðina. Var margoft búin að vara landann við að vera ekki of sigurvissan. Hún fær prik frá afa fyrir það.

Skildu eftir svar