Góðir gestir.

Í gær lét ég nú verða af því að slá hjá mér grasflötina en hún var orðin ansi loðin. Það hefur ekki verið slegið síðan áður en Haukur fór austur á land 14. júlí. Nú er lokapunkturinn kominn á grindurnar á pallinum hjá mér svo það var bara ekki hægt að horfa upp á óslegið grasið.  Við Guðbjörg grilluðum síðan og kíktum svo saman á sjónvarpið. Edda leit svo aðeins inn seinna um kvöldið.


Í dag kláraði ég að klippa kanta og rakaði það sem ég sló í gær. Guðbjörg kom svo við upp úr hádegi og dreif mig með sér í hjólatúr. Mér finnst ég nú orðin svo örugg að hjóla en ég veit ekki hvort henni dóttur minni finnst það eftir hjólatúrinn í dag. Við vorum að hjóla á gangstétt framhjá allskonar hekki og öðrum gróðri þegar allt í einu slóst eitthvað í andlitið á mér þar sem við þeyttumst áfram. Mér brá auðvitað svo mikið að ég hentist af hjólinu og inn í runnann. Sem betur fer var þetta ekki rósarunni 🙂  Ég staulaðist síðan út úr runnanum aftur sem betur fer algjörlega ómeidd og mér datt ekki í hug að athuga hvort ég hafi eitthvað skemmt runnann. Mér finnst að fólk þurfi að klippa greinar sem  standa allt í einu langt út á stétt. þetta getur verið stórhættulegt. Sérstaklega þegar „gamlar“ konur eru á ferð á „Lady Prostyle“ hjólinu sínu (sem er búið að gera óspart grín að), og eru að horfa á garðinn hinumegin við götuna eða eitthvað allt annað en fram fyrir sig. Guðbjörg varð auðvitað dauðhrædd og hélt að hún myndi draga mig í pörtum út úr runnanum. En allt fór vel.


Oddur Arason kom með fulla kerru af fjölærum jurtum sem hann er að fjarlægja úr garðinum sínum á Kirkjuveginum. Ég fékk að velja það sem ég vildi og valdi tvær jurtir sem ég veit ekki ennþá hvað heita en systir mín fræðir mig örugglega um það enda er þetta úr fyrrverandi garðinum hennar.


Síðan fékk ég mjög góða heimsókn þegar Edda mín Garðars og Jón komu og drukku með mér kaffi úti á palli. Þau færðu mér svo fallegar rósir og bókina „Systur“ sem ég er búin að fletta og ætla að kíkja betur á í kvöld. Veðrið hefur verið svona köflótt í dag en ég er þó búin að vera mestan hluta dagsins utandyra því það hefur verið svo hlýtt. Nú er framundan að horfa á sjónvarpsfréttirnar og ef það er eitthvað fleira í imbanum og svo er ég búin að lofa sjálfri mér góðu freyðibaði seinna í kvöld.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Góðir gestir.

  1. Anna says:

    Velkomin heim aftur!
    Það er góður punktur þetta með gróðurinn sem nær yfir grindverkin og truflar gangandi vegfarendur ekkert síður en þá hjólandi. Gott að þú komst ómeidd frá þessu ævintýri. Bestu kveðjur!

    Anna Sigga

  2. Sigurrós says:

    Úff!
    Mér líst ekkert á þetta, held ég sé sammála Guðbjörgu! Þú verður að passa þig á runnunum! Ertu ekki örugglega með hjálm?

Skildu eftir svar