Ferð til borgarinnar við sundin blá.

Ég var í bænum í allan gærdag. Fór um morguninn og byrjaði á því að hitta Birgit og Ingunni Ragnars hjá Ingunni og sat þar í góðu yfirlæti fram yfir hádegi þá fór ég í smá útréttingarúnt hingað og þangað um bæinn.

Síðan hitti ég Sigurrós fyrir utan Hlíðaskóla klukkan hálf þrjú. Ég átti von á henni út af skólalóðinni en sá hana hinsvegar koma yfir götuna, að skólalóðinni með halarófu af börnum á eftir sér, eins og andamamma með ungana sína. Hún hafði farið með krakkana gangandi á næsta pósthús til þess að þau gætu upplifað ferlið við að setja bréf í póst. En þau eiga vinabekk sem þau skrifast á við, nánar tiltekið hérna á Selfossi. Sigurrós sagði að auðvitað hefði verið nærtækast að setja bréfið til ritarans í skólanum sem sér um að senda út bréf, en hana langaði svo til þess að þau fengju að kynnast því að fara á pósthús, kaupa frímerki og líma það síðan á bréfið og setja í póstkassa. Hún sagði að þetta hefði verið þeim ný upplifun. Gaman það.

Við Sigurrós fórum svo á Brúðarkjólaleigu Dóru að athuga hvort við finndum kjól á Karlottu. Það voru nú engir sölukjólar þar en a.m.k. einn sem vert er að láta Karlottu máta. Síðan skoðuðum við aðeins í Tékkkristal. Ég held ég gefist upp við að telja Sigurrós trú um að hún eigi að safna sér einhverju flottu stelli. Hún er svo ákveðin í að gamla stellið, sem hún erfði eftir ömmu sína sé bara alveg nógu gott. Síðan fórum við í Kringluna og fórum fyrst í Byggt og búið en Sigurrós mín nægjusama var helst að spá í að skrá sig á brúðarlista þar og benti á ýmsa hluti sem hana vantaði. Þegar hún benti mér á eggjaskera þá sagði ég henni að hún yrði að gera sér grein fyrir því að ef fólk langaði á annað borð til að kaupa brúðargjöf þá myndi það örugglega ekki kaupa handa henni eggjaskera eða kökuform. Ég gat svo dregið hana yfir í Búsáhöld á fyrstu hæðinni í Kringlunni og eftir gaumgæfilega skoðun ákvað hún að skrá sig þar með gjafalista. Ekki gat ég þó sannfært hana um nýtt stell.

Ég kom svo austur um kvöldmatarleytið og var svo heppin að þurfa að byrja á því að koma við hjá Guðbjörgu og auðvitað var ég drifin beint í kvöldmatinn.

Ég verð að játa að ég var orðin hálf lúin eftir daginn og var því fegin að leka hérna niður í Lazy-Boy stólinn minn þegar ég kom heim.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar