Hún á afmæli hún Tóta

Í dag, 26. maí á hún Tóta mín 90 ára afmæli.
Hún Tóta heitir Þórunn Sigurðardóttir og hún hefur þekkt mig frá því ég fæddist. Við bjuggum sitt hvoru megin við götuna í Kleppsholtinu þegar ég var lítil og líka þegar ég var orðin stór og flutti aftur á Kambsveginn. Hún og mamma voru góðar vinkonur og ég var algjör heimagangur á heimilinu hjá Tótu og Guðmari enda vorum við krakkarnir miklir vinir. Ég kem stundum til hennar þegar ég á erindi í bæinn og þá rifjum við upp gamla tímann. Mér finnst, fyrir utan systur mína, hún Tóta orðinn eina manneskjan sem ég hef þekkt alla mína ævi. Núna er hún orðin sú eina sem eftir er á bernskuslóðunum, og minnir á þennan yndislega tíma þegar ég var að alast upp. Allir hinir eru ýmist fluttir burtu eða farnir yfir móðuna miklu eins og foreldrar mínir og Guðmar en hún Tóta mín er sem betur fer enn á sínum stað og reyndar er hún svo heppin að Siggi sonur hennar, gamli leikfélaginn minn, býr í sama húsi og mamma hans.

ÉG ÓSKA HENNI TÓTU HJARTANLEGA TIL HAMINGJU
MEÐ 90 ÁRA AFMÆLIÐ

Þessi mynd var tekin af okkur þega allir gömlu félagarnir úr hverfinu hittust í fyrra, eða var það í hitteðfyrra? Þetta hefði Tóta örugglega verið með á hreinu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Hún á afmæli hún Tóta

  1. afi says:

    Mikið er hún ungleg og falleg hún Tóta þín. Sendum henni innilegar hamingjuóskir með daginn.

  2. Ragna says:

    Kannast afi kannski við Guðmar, hann átti tvær grænar rútur og var með sérleyfið austur í Hveragerði og Ölfus? Tóta er frá Hjalla í Ölfusi.

  3. afi says:

    afi man eftir óljóst þó þessum rútum.
    Krakkinn úr litla kotinu fór oft í messu í kirkjunni á Hjalla í Ölfusi. Gæti verið að Þórður á Grund hafi ekið fyrir Guðmar?

  4. Ragna says:

    Svei mér þá ef hann hét ekki einmitt Þórður sem ók fyrir Guðmar. Ég man að hann var haltur bílstjórinn sem ók fyrir hann. Annars var maður nú bara svona krakkafífl, en við vorum alltaf að sniglast í kringum hann Guðmar og fengum að fara með honum niður á BSÍ. Hann var svo góður að leyfa manni að koma með í rútunni.

  5. afi says:

    Hann Þórður á Grund var nágranni krulla í litla kotinu. Hann var einnig smíðakennari við skólann. Það er rétt munað hjá þér að hann var haltur.
    En var ekki annar rútukall í Ölfusinu? Kristján Jónsson? Var það kannski síðar?

  6. Ragna says:

    Nú bara veit ég ekki, en ég man eftir Þórði. Ég veit hinsvegar ekkert hver tók við þegar Guðmar hætti akstrinum austur. Það sannast enn og aftur hvað við búum í litlu og notalegu þjóðfélagi. Þegar tveir talast við þá kemur alltaf í ljós að þeir kannast við sama fólkið eða eru annað hvort skyldir eða tengdir á einhvern hátt.

  7. afi says:

    Já er það ekki svolítið merkilegt.

Skildu eftir svar