Götustelpurnar og skrítna ballið.

Ég dreif í því að kalla á nokkrar konur hérna úr götunni til að koma í AVON kynningu hjá mér og smá veitingar á miðvikudagskvöldið. Þetta reyndist verða hið skemmtilegasta kvöld og þó ég hafi farið af stað með hálfum huga, þá sá ég sko ekki eftir því að hafa hleypt í mig kjarki og bankað uppá hjá svo til ókunnugu fólki (ég vissi ekki einu sinni nafnið á öllum). Þær voru svo þakklátar og allar sem ég hafði samband við komu. Við erum svo margar hérna á svipuðum aldri og vorum sammála um að það væri gaman að hittast oftar og leyfa jafnvel blessuðum köllunum að koma líka. Það var allavega ítrekað að við hefðum gott götugrill þegar aðeins fer að líða meira á sumarið. Þegar vörurnar sem þær pöntuðu komu, labbaði ég mig út til að dreifa fínheitunum og var alls staðar boðið að koma inn. Ég fór nú ekki inn nema á tveimur stöðum í þetta sinn. En, þetta var mjög skemmtileg reynsla. Ég var búin að hugsa um það í langan tíma að gera þetta en fannst eitthvað svo erfitt að koma því í framkvæmd. Það sannast víst að maður á bara að láta vaða og drífa í hlutunum en velta þeim ekki svona mikið fyrir sér.

SKRÍTIÐ DANSIBALL

Við Haukur vorum ákveðin í því að halda uppá það að hann er kominn í sumarfrí, með því að fara á gömludansaball með Hjördísi Geirs og Örvari Kristjánssyni á Borg, en ég hafði séð það auglýst í bæjarblaðinu í vikunni. Þegar ég var tilbúin, en var að bíða eftir Hauki þá tók ég eftir því að nágranni minn, sem hafði verið í sumarbústað, var komin heim. Hún átti eftir að fá sitt AVON dót svo ég skokkaði með það yfir á meðan. Húsbóndinn kom til dyra, svona líka strokinn og fínn. Ég sagði sem svo "þið eruð þó ekki líka að fara á gömludansaball upp að Borg" – "Jú einmitt".

Til að stytta söguna þá komu þau með okkur á ballið. Já ballið! Þetta var nú ekki ball eins og við höfðum átt von á. Við héldum að þetta væri í Félagsheimilinu Borg en þar höfum við áður farið að dansa, heldur var þetta á Minni Borg, sem er gamalt pínulítið hús og þegar við kíktum inn þá sýndist okkur hvergi vera danspláss en það var aðeins rúttað til og tekið burtu borð þannig að það var pláss fyrir svona eins og 6 pör að dansa í einu. Þau voru bara tvö sem mynduðu hljómsveitina Hjördís og Örvar en það var nú allt í lagi. Það sem hinsvegar gerði að við entumst ekki nema til miðnættis var reykjarsvælan. Það kom nefnilega stór hluti af fólkinu bara til að reykja og drekka en í svona litlu rými verður alveg ólíft þegar það er mikið reykt. Við Kristín erum báðar viðkvæmar fyrir reyk (báðar með astma) þannig að það var samkomulag að við færum um miðnættið. Stefán og Kristín buðu okkur síðan inn hjá sér í te. Við skáluðum fyrst í Sherrýi fyrir okkur nágrönnunum og fyrir fallega Úlfareyninum, sem við erum komin með á lóðamörkin hjá okkur og fórum síðan yfir í teið. Við sátum svo hjá þeim til klukkan að ganga þrjú og leiðin heim var stutt, ekki nema svona 10 skref þar til við vorum komin inn hjá okkur.

Þrátt fyrir skrítið ball þá reyndist þetta mjög gott og skemmtilegt kvöld.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Götustelpurnar og skrítna ballið.

  1. afi says:

    Hvað er svo glatt, sem góðra vina fundur? Sammála þér með reykjasvæluna. Svo öll föt í þvott eða hreinsun á eftir. Það er alltaf gaman að kynnast góðu fólki.

  2. Edda Garðars says:

    Mórudalur
    Didda mín, þegar ég var að lesa þessa skemmtilegu lýsingu þína á húsakynnunum þar sem átti að halda Borgarballið þá minntist ég löngu liðinna daga þegar við barnungar skokkuðum í Mórudalinn á ball, mig minnir nú helst að þar hafi ekki einu sinni verið rafmagn, en mikið var nú gaman. Ekki man ég eftir reykjarsvælu þar, reykti nokkur í þá daga? Bara smá jók.
    skilaðu kveðju til Hauks
    þín Edda G

  3. Sigrún says:

    Þið hafið verið einstaklega óheppin með dansleiki upp á síðkastið!

Skildu eftir svar