Ekki eins töff og ég var álitin vera.

Það voru gerðar tvær tilraunir til þess að ég sæi STAR WARS. Sú fyrri fór fram í gærkvöldi en þá var ég svo heppin að eitthvað hafði bilað í sýningarvél svo að sýningunni var aflýst. Ég var því alveg róleg og vonaði að þar með myndi málið niður falla. En það gerði það ekki, því sumir eru meiri aðdáendur slíkra mynda en aðrir.

Við skötuhjúin fórum því út í Selfossbíó rétt fyrir klukkan átta í kvöld og gerðum aðra tilraun. Annað okkar mjög spennt en hitt ákveðið í að gera sitt besta og ef í hart færi þá ætlaði ég bara að reyna að að þrauka þar til þetta væri búið.

Málið var ekki eins einfalt og ég hafði séð það fyrir mér. Ég var búin að sitja í 15 mínútur með fingurna svo langt inni í eyrunum að ég var hrædd um að þeir myndu skaða heilann ef ég træði þeim lengra. Svo varð auðvitað að vera með lokuð augun því stríðssenurnar voru svo hraðar og ljósasverðunum svo hratt á loft brugðið að varla var hægt að fylgja því eftir, alla vega ekki fyrir svona ömmu eins og mig. Ég veit að ég hjóma mjög neikvætt en það get ég svarið að ég reyndi mitt besta. Ég ákvað hinsvegar þegar hausinn á mér var að springa af hávaðanum, að þetta gæti ég ekki með nokkru móti. Ég gat öskað því í eyrað á Hauki að ég gæti ekki meira og væri farin en hann skyldi vera áfram. Ég vonaði að hann heyrði eitthvað af því sem ég sagði. Mér létti strax þegar ég kom út fyrir salinn.

Ég ætlaði bara heim og koma svo aftur og sækja Hauk en á leiðinni upp stigann þá datt mér í hug að kíkja inn í hinn salinn. Viti menn þar var sko mynd sem var bæði yndisleg og skemmtileg og ekki spillti fyrir að hún gerist á Englandi. Myndin heitir "The Wedding date". Ég mæli með henni. Ég beið svo eftir STAR WARS manninum mínum og þegar upp var staðið voru bæði mjög ánægð með bíókvöldið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ekki eins töff og ég var álitin vera.

  1. afi says:

    Stríðshetjan, það verður ekki á þig logið. Skil ömmuna vel með hávaðann hann er orðinn lítt þolandi í kvikmyndahúsum í dag. afi sleppur líkast til, pabbinn ætlar víst með tvíburana á þessa mynd. Gott að þú fannst mynd við hæfi.

Skildu eftir svar