Vikulok.

Já þá er þessi góða vika á enda og lýkur með þessu líka rjómaveðri. Það er varla að maður geti hugsað sér að fara í háttinn þegar það er svona mikil kvöldkyrrð. 


Dagurinn byrjaði á því að ég fór í messu í Selfosskirkju í morgun. Ég ákvað mig bara fimm mínútum fyrir ellefu og náði inn á fyrstu orgeltónunum.


Þegar ég kom heim úr kirkjunni las ég síðan sunnudagsblöðin og borðrði hádegissnarlið mitt úti eins og ég hef reyndar getað gert flesta daga vikunnar. Seinnipartinn skruppum við Guðbjörg síðan í bíltúr og komum aðeins við í Eden svona til að kíkja á mannlífið. Þetta er síðasti dagurinn sem Karlotta og Oddur eru hjá pabba sínum í sumarleyfinu og Haukur er enn austur á landi svo að við einsetukonurnar ákváðum að skreppa á Steikhúsið og fá okkur að borða. Ég fékk mér mjög góðan fiskrétt, það kemur svo sem engum á óvart því ég panta alltaf fiskrétti en Guðbjprg fékk sér kjúklingarétt. Þetta var ágætisslútt á þessu fríi sem við höfum átt saman. Nú eru börnin sem sagt væntanleg heim mjög seint í kvöld og Haukur kemur á fimmtudaginn og þá fer lífið svona í fastari skorður hjá okkur báðum.


Nú er best að drífa sig í háttinn því ég fer í bæinn í fyrramálið til tannlæknis svo ég læt hér staðar numið. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar