Ísland í dag – Spánn seinni partinn í júní.

Mikið erum við, sem búum á norðlægum slóðum, heppin að geta bætt við okkur flíkum þegar okkur finnst of kalt á sumrin.
Við sjáum sólina í útlöndum í draumsýn og auðvitað grípum við fyrsta tækifæri til að komast til draumalandsins. Þannig var einmitt háttað um undirritaða, sem nú er nýkomin heim frá Spáni, þar sem hitinn fór aldrei undir 30° í skugga. Guð má vita hvað hann fór hátt í sólinni, en við vorum ekki með útihitamæli, bara þennan sem aldrei skein sól á.

Kæru vinir, þið megið ekki halda að ég hafi verið í glötuðu sumarleyfi því það var ég svo sannarlega ekki. Fyrsta hugsunin núna þegar ég settist við að færa í dagbókina mína var bara hvað það er yndislegt að hafa hreina loftið okkar á Fróni þó stundum sé það kannski bæði of kalt og of blautt þá er auðveldara að bæta úr því heldur en of miklum hita sem ekki er hægt að flýja nema fara ofan í sundlaugina – og vera þar.

Ég lagði upp í Spánarferðina með góðum ferðafélögum. Fyrstan ber að nefna Hauk, síðan Guðbjörgu, Magnús og barnabörnin Karlottu og Odd en við deildum saman húsi á Spáni. Þá nefni ég síðast en ekki síst foreldra Magnúsar þau Magnús og Rögnu sem var mjög gaman að fá tækifæri til að kynnast, en þau voru í húsi nálægt okkur.

Hér erum við öll saman á Kínverskum stað.

En nú hefst hin eiginlega ferðasaga:

Það var mikil eftirvænting að koma sér í Leifsstöð til þess að hefja ferðina árla morguns þann 16. júní. Fyrst til að bóka sig inn voru foreldrar Magnúsar þau Ragna og Magnús, sem upphaflega hófu ferðina frá heimabænum Akureyri. Þau höfðu hinsvegar samband við okkur um það leyti sem við vorum að leggja af stað til Keflavíkur og létu okkur vita að það væri seinkun. Við ákváðum því að hinkra í Hafnarfirðinum hjá Hauki eftir frekari fréttum.

Það kom grænt ljós nokkru fyrir hádegi og þá drifum við okkur suðureftir, en þegar við mættum í Leifsstöð kom í ljós að vélin var ekki komin til landsins og það sem meira var, hún var biluð á Spáni og íslensku farþegarnir sem þar voru biðu eftir að hægt væri að finna aðra vél til þess að koma þeim heim. Líklegast yrði fengin vél frá Kanaríeyjum til þess að fara til Spánar og síðan heim til Íslands, en það var þó ekki fullákveðið.

Ég ætla nú ekki að teygja lopann að óþörfu með því að fara í öll smáatriði en leikar fóru þannig að þau Ragna og Magnús fengu leyfi til þess að koma aftur niður þó þau væru búin að tékka sig inn í flugið og við fengum öll hótelherbergi á Hótel Keflavík til þess að hafa þar aðsetur þar til flogið yrði. Það má svo sem segja að við höfum verið þar í góðu yfirlæti og það bjargaði okkur svo sannarlega að geta haft þar samastað.

Ég lofaði að teygja ekki lopann og stytti því söguna enn frekar og segi ykkur að við komum loks á áfangastað um klukkan hálf sjö næsta morgun, nánast sólarhring eftir að við lögðum af stað heiman frá okkur.

En það má segja að fall hafi verið fararheill því öll komum við heim aftur og ekkert okkar dó eins og þar stendur, en við getum verið þakklát fyrir það, eins og hitinn var hræðilega mikill. Ég á kannski eftir að segja ykkur meira af ferðinni seinna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ísland í dag – Spánn seinni partinn í júní.

  1. Þórunn says:

    Velkomin heim
    Sæl og blessuð, það er gott að sjá þig aftur á netinu, ég sé að þið hafið haft það gott, þrátt fyrir hitann, ég kannast við svona veður. Það verður gaman að heyra meira frá ferðinni, ef þú hefur tíma vegna þess sem er næst á dagskrá hjá þinni fjölskyldu.
    Kveðjur frá heitu Portúgal

Skildu eftir svar