Undirbúningurinn og Brúðkaupið.

Hér eru lukkulegu brúðhjónin komin í veislusalinn.

Magnus minn, ég vona að þú fyrirgefir mér, að ég nældi mér í myndir úr albúminu þínu því ég tók engar sjálf.

Hér fyrir neðan stikla ég svo á stóru um undirbúninginn og brúðkaupið sjálft.

Á meðan við Guðbjörg spókuðum okkur í sólarhitanum á Spáni ásamt fylgifiskum þá var Sigurrós alveg á fullu að skipuleggja og framkvæma ótrúlegustu hluti í sambandi við brúðkaupið. Maður hafði nú samviskubit af að þetta skyldi hittast svona á en hún vildi gera allt sjálf svo það er ekkert víst að við hefðum fengið að koma mikið nærri því sem hún var að gera þó við hefðum verið heima.

Þetta hefur bara verið frábært alveg út í eitt og mikið hafa síðustu dagar verið skemmtilegir.

Á föstudaginn fórum við Guðbjörg og Karlotta í bæinn til þess að hjálpa til við að skreyta veislusalinn. Þegar við komum var Björk mamma Jóa mætt og vinkonur Sigurrósar þær Stefa,sem auk þess að brjóta servíettur með Jóhönnu, tók myndir af hverri hreyfingu okkar og Sigrún sem heldur betur tók til hendinni. Síðan bættist karlpeningur í hópinn, þeir Haukur, Jói og Jens. Samkennarar Sigurrósar úr Hlíðarskóla litu líka við því þær höfðu boðið sig fram til þess að þjóna í veislunni og vildu aðeins kynna sér aðstæður. Yndislegt að eiga svona góða vini og vinnufélaga sem allt vilja fyrir mann gera. Sigurrós er aldeilis heppin.

Hér sjáum við Stefaníu (næst okkur) Önnu og kærastan hennar.

Um hádegi á laugardaginn fórum við svo allar í snyrtingu og hárgreiðslu á sama stað, brúðurinn og mömmurnar báðar, Guðbjörg og brúðarmærin Karlotta. Svo kom hún Stefa okkar með góða skapið sitt og tók af okkur myndir í gríð og erg, bæði fyrir og eftir og fóðraði okkur á súkkulaði og fínheitum.

Stefa átti svo heldur betur eftir að koma við sögu í veislunni með því að sýna frábæra klippingu af "gæsavideoinu" og fá gestina út á gólf í partýpolka. Það var gaman að sjá hvað unga fólkið skemmti sér vel í polkanum, allir brosandi út að eyrum.

Ég má til með að sýna ykkur þessa mynd af fingrapolkanum sem Loftur veislustjóri og Magnús már dönsuðu af mikilli list.

MR vinkonurnar voru svo með skemmtilegan leik þar sem þær sendu þáttakendur út í sal til þess að finna ýmsa hluti, eins og gleraugu, skó númer 38 o.fl. ofl. Sá sem kom síðastur var svo úr leik en fékk í verðlaun að gera eitthvað fyrir brúðhjónin seinna, eins og að gefa þeim páskaegg á næstu páskum, bjóða þeim í grillveislu o.fl. Það var mikið hlegið og mikið gaman.

Svo ég komi nú aftur að aðalathöfninni í kirkjunni þá fór nú ekki hjá því að ég fengi svona smá fiðring í magannná meðan ég beið eftir að brúðurin mætti og athöfnin færi að hefjast (ég fæ myndir úr kirkjunni seinna). Karlotta brúðarmær tók hlutverki sínu af mikilli alvöru og stóð sig með prýði en Oddur Vilberg átti erfiðara með að sitja kyrr og hafa ekkert fyrir stafni. Hann mátti nú eiga það að ekki heyrðist bofs í honum en hann var í alveg nýjum leðurskóm sem því miður voru með spæl með fönskum renniás ofaná ristinni. Hann fann sér því það til dundurs að vera að opna og loka spælnum á skónum og prufa að festa spælinn á öðrum skónum yfir á hinn. Amma, sem sat svona rúman meter frá honum var nú orðin svoldið stressuð en sat samt á sér að grípa til aðgerða – sem betur fer. En í veislunni á eftir töluðu aðrir um að það hefði verið svo skemmtilegt að fylgjast með honum. Já, það er greinilegt að ekki hafa allir sama smekk fyrir skemmtilegheitunum.

Ég ætla nú ekki að fara frekar út í smáatriði en þetta fór allt svo vel fram og veislan var frábær, góður matur, skemmtilegt og bros á hverju andliti. Brúðhjónin voru yfir sig ánægð með þetta allt saman. Sigurrós á nú örugglega eftir að setja bæði myndir og frásögn á vefinn sinn þó það verði ekki alveg strax.

Ég þakka kærlega öllum sem tóku þátt og gerðu þetta allt svo frábært og skemmtilegt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Undirbúningurinn og Brúðkaupið.

  1. Loftur says:

    Sæl Ragna mín og takk fyrir síðast.
    Ég vil bara taka undir með þér að þetta var afskaplega skemmtilegt kvöld og athöfnin í kirkjunni var góð. Þá hugsaði ég allan tímann um góðan bróður sem mér fannst að væri að fylgjast með og ég er viss um að hann hefur verið stoltur af litlu stelpunni sinni. Annað var ekki hægt !
    Það var bara eitt sem situr í mér eftir þennan yndislega dag ; maturinn var svo ofsalega góður og ég náði ekki að fá mér tvisvar á diskinn. Sigurrós og Jói bættu mér það upp á sunnudagskvöldið þegar þau færðu mér þetta líka flotta koníak. Þau hafa sennilega séð að ég fór „svangur“ heim.

  2. Ragna says:

    Leyfi að handan.
    Já Loftur minn, ég efast ekki um að hann var okkur nálægur það er ekki spurning og hver veit nema hann hafi fengið að fara með stelpunni sinni í brúðkaupsferðina líka. Ég efast ekki um að þetta var allt eins og hann hefði viljað hafa það, létt og skemmtilegt.
    Ég þakka þér mikið vel fyrir þitt framlag Loftur minn. Þú hefur fengið svo mikið hól að ég held þú ættir að íhuga að leggja bólstrunina á hilluna og snúa þér alfarið að veislustjórninni.
    Kær kveðja kæri mágur.

  3. Ragna says:

    Smá viðbót.
    Það er synd að þú skyldir ekki komast í að fá þér meira að borða því mikið var til af matnum.
    Ég var mjög undrandi þegar ég komast að því að kokkarnir hefðu tekið allan afganginn af þessum góðu steikum með sér þegar þeir fóru..

Skildu eftir svar