Kaupsamningar og tiltekt.

Jæja nú er komin vika frá brúðkaupi og eins og við er að búast er lífið komið í sitt fyrra horf eftir allan spenninginn undanfarið.

Við höfum svo sem haft í nógu að snúast og fórum m.a. tvisvar í vikunni í bæinn í heimsókn á fasteignasölur. Í fyrra skiptið var Haukur að skrifa undir kaupsamning að nýju íbúðinni á 11. hæð í Austurbrún 2. Já það er nokkuð sniðugt að hann skuli hafa keypt íbúð í gamla hverfinu mínu. Hann verður örugglega ekki svikinn af því, með Laugardalinn við húsdyrnar og sundlaugarnar nánast í sömu götu að ekki sé talað um útsýnið af 11. hæðinni.
Síðan fórum við seinni ferðina til þess að skrifa undir sölusamninginn að íbúðinni í Hafnarfirðinum. Nú er allt frágengið svo það er eins gott að fara að grisja og pakka niður. Þetta með að grisja getur orðið nokkuð strembið fyrir mann sem ekki vill henda því sem "kannski verður hægt að nota seinna". Við komum með fulla kerru úr stóra bílskúrnum í Hafnarfirðinum til þess að setja í skúrinn hérna í Sóltúninu.
Ég fór því aftur yfir geymsludótið mitt og gaf m.a. nokkra bókakassa í viðbót hérna á bókasafnið. Við fórum líka yfir ýmislegt frá okkur báðum, "sem kannski væri hægt að nota seinna" og komumst að því að stór hluti af því er dót sem ekki verður notað seinna sökum þess m.a. að það er orðið úrelt, það þarf t.d. ekki að geyma festingar til þess að setja innan í þvottavélar (allar sem maður hefur átt), allar mögulegar og ómögulegar spýtur sem hafa dagað uppi, alls konar plaströr úr pípulögnum o.fl. o.fl. Útkoman varð sem sé sú að það fór vel full kerra upp í gámastöð og nokkrir bókakassar á bókasafnið. Nú er bara sæmilega snyrtilegt í skúrnum, búið að kaupa plastkassa til þess að geyma dót í. Nú er t.d. allt sem viðkemur bílaþvottinum í einum stórum bláum plastkassa og annar við hliðina með alls konar tuskum. Já, konan fékk að skipuleggja í hillurnar, svo líkir hlutir séu saman og auðvitað allt sett í bláa kassa og nú er bara gaman að líta í kringum sig í skúrnum. 🙂 Frábært að þessu skuli lokið – allavega í bili.

Nú getum við notið sólarinnar sem búið er að spá næstu daga með góðri samvisku.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar