Gaman, gaman.

Já það heldur áfram að vera sól og blíða og 24 – 26 °hiti. Nú er það bara orðið þannig að um miðjan dag þá bara getur maður ekki verið lengur úti því það er svo heitt. Þið sem búið í Reykjavík hafið fengið svona einn og einn þokudag en við erum bara í sólinni allan daginn, alla daga. Við höfum ekki verið neitt sérlega spennt að fá okkur heitan pott hérna á veröndina en síðustu daga hef ég alvarlega verið að spá i að fá mér pott og fylla hann af köldu vatni.

Ég sá að Sigurrós hafði skrifað í orðabelginn hjá mér í fyrrakvöld og talað um að hafa nú flíspeysu með sér í heimsókn til mömmu því það væri alltaf verið úti á palli og hún væri nú frekar kulvís. Hvað gerðist svo þegar Sigurrós mín kom í heimsókn? Mamma varð að lána henni hlýrabol svo hún héldist við úti. já, því segi ég það svona er nú ÍSLAND Í DAG, alla vega SELFOSS Í DAG.

Sigurrós kom um hádegi í gær með Björk tengdamömmu sinni og Dídí mömmu hennar. Þær komu færandi hendi með yndislega fallega rós sem heitir því flotta nafni SUPER STAR. Síðan bættist Guðbjörg í hópinn.

Við áttum hérna mjög góðan dag konurnar. Haukur þurfti að erinda í bænum og fannst svo tilvalið að gera það þennan dag 🙂
Ég get nú alveg skilið að hann hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á að vera einn hérna með 5 konum svo þetta passaði allt fínt.
Sigurrós varð eftir þegar Björk og Dídí fóru og þá dúlluðumst við aðeins hérna mæðgurnar þrjár og skruppum m.a. í búðir. Síðan grilluðum við og auðvitað var borðað beint af grillinu úti á palli, nema hvað? Þá var Haukur kominn aftur heim og eftir matinn sýndi Sigurrós okkur svo í sjónvarpinu allar 1000 myndirnar úr brúðkaupsferðinni svo gátum við líka skoðað myndirnar úr brúðkaupinu, þessar sem ljósmyndarinn tók. Þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða að þessar myndir verði öðrum til sýnis líka á vef þeirra hjóna.
Sigurrós gisti svo hérna í nótt og fór heim með rútunni klukkan fjögur í dag.
Ég hélst ekki lengur við úti og settist því við tölvuna og skellti þessum pistli inn. Nú er hinsvegar best að fara að huga að því að taka til einhvern matarbita fyrir þann sem alltaf er að laga og bæta.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Gaman, gaman.

  1. Þórunn says:

    Gott veður
    En hvað það er dásamlegt að sjá ykkur njóta góða veðursins, á meðan ég er að vonast eftir rigningu. Svona eru óskir mannanna misjafnar. Til hamingju með nýju rósina hún sómir sér vel á pallinum.

Skildu eftir svar