Tannlæknirinn.

Ég fór til Reykjavíkur til að hitta tannlækninn minn í morgun.  Hún tók fjórar myndir, ekki af því að grunur væri um að neitt væri að heldur bara af því að hún sá í skýrslunni að það væri svo langt síðan það hefðu verið teknar myndir??? Síðan hreinsaði hún og setti eitthvert flúormauk yfir í restina og sagði mér að ég mætti ekki borða neitt í a.m.k. klukkutíma, þetta var um klukkan tólf.  Allt var þetta jú gott og blessað ef ég hefði ekki verið búin að mæla mér mót við Eddu Garðars til þess að borða saman súpu á góðum stað í hádeginu. Við létum nú ekki slá okkur út af laginu og hittumst eftir sem áður á fjórðu hæðinni í Perlunni og Edda fékk sér súpu og brauð og eins og vant er þegar við hittumst þá flaug tíminn svo hratt að ég náði að fá mér súpu og brauð líka í restina.


Það var svoldið sérstakt veðrið þegar ég ók aftur austur. Sól og blíða þangað til á Sandskeiðinu þá kom allt í einu slík hellirigning að þurrkurnar höfðu varla við og síðan ók ég inn í sólina aftur ofar í Svínahrauninu.


Það var gaman að koma heim því Karlotta beið mín hjá Eddu systur – eintómar Eddur í dag- en ég var ekkert búin að hitta krakkana síðan þau komu heim klukkan eitt s.l. nótt. Guðbjörg hafði þurft að fara í bæinn og tók Odd með sér en Karlotta átti að fara í afmæli til vinkonu sinnar úr leikskólanum og beið því hjá Eddu eftir að amma kæmi heim til þess að koma henni í afmælið. Það voru miklir fagnaðarfundir. Það er alveg yndislegt að geta verið svona nálægt barnabörnunum sínum og hitta þau eins oft og ég hef getað gert. Þegar Sigurrós og Jói ákveða að fjölga mannkyninu þá verða þau bara að koma hérna í sveitasæluna líka. Það er eitt af fáu sem vantar til þess að allt sé fullkomið.


Ég eldaði kjúkling og bauð Guðbjörgu og krökkunum að vera í mat hjá ömmu. Karlotta hafði verið að enda við að borða Pizzu í afmælinu svo hún var nú ekki ýkja svöng.


Ég fór svo í göngutúr um hálf tíu í kvöld ég bara hélst ekki við inni því veðrið var svo gott. Það er alveg ótrúlegt hvað það er alltaf mikið stafalogn þessa dagana. Ég gekk niður að ánni sem var að fá á sig gullinn blæ í kvöldhúminu og síðan upp í nýja hverfið til að sjá hvernig byggingaframkvæmdir ganga þar. Það er svo ótrúlegt að fylgjast með þessum nýja byggingarstíl sem nú tíðkast. Nú er bara komið með einingar að morgni og svo er komið hús að kvöldi eða næsta dag.´


Nú ætla ég að fara í rúmið og klára þessar fáu blaðsíður sem eftir eru í bókinni sem Sigurrós lánaði mér fyrir löngu síðan. Vonandi sofna ég ekki áður en mér tekst að klára hana. Ég hef einhvernveginn aldrei vanist því að lesa sögubækur á daginn og þegar ég les uppi í rúmi á kvöldin þá verð ég svo syfjuð að ég les svona tvær til þrjár opnur áður en ég sofna og næst þegar ég byrja að lesa þá verð ég alltaf að lesa síðustu opnuna aftur því þá man ég ekkert hvað ég las síðast því þá var ég orðin hálfsofandi.Þetta er eins og að taka svona tvö til þrjú skref áfram en fara síðan alltaf eitt afturábak.  Ekki furða að það taki tíma að klára bók með þessu háttarlagi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Tannlæknirinn.

  1. Edda Garðars says:

    Til hamingju
    Didda mín,
    Innilega til hamingju með heimasíðuna þína. Ég hef alveg gleymt mér í á annan tíma við að skoða myndir og lesa dagbókina þína. Ég hef alveg sérstaklega gaman af myndunum af litlu ömmubörnunum þínum, nú er orðið svo langt síðan að ég hef séð hann Odd. Þau eru bæði alveg yndisleg.
    Talandi um allt annað – þ.e. hvað veðrið getur verið undarlegt, lýsingin þín á veðrinu á Hellisheiðinni er alveg eins og þegar við Nonni komum til þín á laugardaginn var. Jæja, Didda mín, nú ætla ég að halda áfram að skoða myndirnar þínar. Þú hefur sett inn gamla og góða mynd af okkur vinkonunum, við erum hræðilega ungar þarna, ég man nú reyndar alveg þegar þessi mynd var tekin. Jæja, ég býð þér góða nótt Didda mín.
    kveðja
    þín vinkona Edda GG
    ps. ég get aldrei hætt, ég hlakka svo til þegar þú ferð að setja inn uppskriftirnar.
    kveðja
    sama

Skildu eftir svar