Minningarbrot

Þó ég hafi ekkert að segja þá er það nú svo að ef maður er með dagbók á annað borð þá sé það ákveðin kvöð að skrifa í hana.

Manni finnst alltaf svo skemmtilegur þessi árstími þegar krakkarnir fara að mæta í skólann. Maður sér þessi litlu börn trítla með svo stórar töskur að þau verða að passa vel upp á jafnvægið til að detta ekki.

Annars fer þeim börnum sem maður sér með skólatöskur fækkandi ár frá ári því nú er flestum ekið til og frá skóla.

Já það hefur mikið breytzt síðan í "den" þegar amma var ung þá þótti ekkert tiltökumál að ganga langar leiðir til að komast í skólann hvernig sem veðrið var. Það sitja nokkur uggvænleg augnablik eftir í minningunni eins og það þegar litla stúlkan var kaffærð í snjó á leiðinni, af einhverjum hrekkjusvínum. Eftir það þurfti að lengja gönguleiðina talsvert til þess að þurfa ekki að fara framhjá götunni þar sem hrekkjusvínin áttu heima.

Svo eru líka minningar sem voru uggvænlegar um tíma en breyttust síðan í nokkrar þeirra bestu. Eins og minningin um jólaball sem var í skólanum. Það var kalt þennan dag en ágætis veður og þar sem enginn bíll var til á heimilinu þá var ekki um annað að ræða en að ganga þessa leið í skólann í jólakjól og kápu, í stígvélum með jólaskóna í poka. Þetta gekk nú allt vel en þegar jólaballinu lauk var komið snarvitlaust veður með byl. Litla stúlkan var svo hrædd um að komast ekki heim og hugsunin um það hvað mamma og pabbi yrðu sorgmædd ef hún finndist bara einhversstaðar frosin daginn eftir. Já, svona voru hugrenningar stúlkunnar, sem þá var nýorðin 8 ára, á meðan hún baksast áfram í bylnum. Á þessum tíma var skjólklæðnaður ekkert í líkingu við það sem er í dag og stígvélin voru löngu full af snjó og litla stúlkan orðin köld og döpur. En heim komst hún til mömmu, sem var búin að bíða áhyggjufull og rýna út í bylinn og það var vel tekið á móti stúlkunni með sömu hlýju og alltaf og eftir að mamma hafði tekið hana úr vosbúðinni og gefið henni heitt kakó og mikið knús þá var þetta allt í einu orðinn svo yndislegur dagur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Minningarbrot

Skildu eftir svar