Express – Perlan – nýir skór.

Haukur fór í bæinn á föstudag til þess að halda áfram að pakka niður fyrir flutninginn úr Hafnarfirðinum. Það var hringt til hans um hádegi og tilkynnt að hann mætti sækja lykilinn að nýju íbúðinni. Spennandi allt saman.

Ég ákvað hinsvegar að fara líka í bæinn og hitti Sigurrós, sem aldrei þessu vant var laus úr vinnu um klukkan tvö. Við lögðum leið okkar á skrifstofu Iceland Express í Grímsbæ, þar sem Sigurrós ætlaði að gera kröfu um að fá endurgreiddar um 40 þúsund krónur sem þau þurftu að greiða í beinhörðum peningum vegna seinkunnarinnar í síðustu viku. Þjónustan á þeim bæ var hinsvegar sú að allir sem höfðu með kvartanir að gera voru farnir heim. Halló !!! Við vorum þarna klukkan rétt rúmlega tvö – eftir hádegi. Það er svo sem ekkert skrítið að þeir hlaupi í felur því sjálfsagt fá þeir mörg slík erindi á hverjum degi.
Sigurrós lét þessa einu stúlku sem var sjáanleg, ljósrita gögnin sem hún var með og skildi eftir. Fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður. Ég mun segja frá því hvernig þessi saga endar. Ef hún endar vel halda þeir hjá Iceland Express andlitinu, en ef hún endar illa þá tapa þeir mun meiri fjármunum vegna allra þeirra sem ekki munu þora að ferðast með þeim. Því að vinir, vinnufélagar á tveimur stórum vinnustöðum og fleiri bíða spenntir eftir að heyra hvernig þessu máli lýkur.

Það er fróðlegt að lesa þetta sem Neytendasamtökin birtu nýlega.

Restin af deginum:

þegar við komum af ofangreindri skrifstofu þá lá leiðin út framhjá kvenfataverslun sem er á fyrstu hæðinni í Grímsbæ. Í dyrunum stóð kona sem ég kannaðist strax við þó ég hafi ekki hitt hana síðan 1968. Ég gekk því að henni og spurði hvort hún þekkti mig ekki. Júúú? en mundi ekki nafnið alveg strax en þegar ég nefndi Hraunbær 12 þá kom það. Þessi kona átti heima í íbúðinni fyrir neðan okkur í Hraunbænum þar sem við bjuggum í þrjú ár. Það var gaman að rifja upp gamlan tíma og við stoppuðum þarna góða stund. Það var sem sé ekki allt neikvætt við komuna í Grímsbæ.

Þegar þarna var komið sögu þörfnuðumst við sárlega hressingar svo við tókum strikið eftir Bústaðaveginum og enduðum í Perlunni þar sem við fengum okkur kaffi og vöfflur með hinum túristunum sem þar voru. Ég segi hinum túristunum því nú er ég Selfosskonan auðvitað túristi í höfuðborginni. Við ákváðum svo að skreppa inn í Kringlu. Mig hefur lengi vantað skó en ekki séð neina sem mig langar í því skótískan undanfarið hefur svo sannarlega ekki verið að mínum smekk. Ég treysti mér ekki til að fara ekki á hausinn í skóm með langar mjóar tær, fyrir utan það hvað mér finnst þeir ferlega ljótir. Ég var nú ekki sérlega bjartsýn á að finna neitt frekar en fyrri daginn. En viti menn fyrsta búðin sem við fórum inní var Steinar Waage og þar varð ég hvílíkt ástfangin af skóm og hvílíkur draumur að fara í þá. Mér fannst þeir helst til dýrir á 8.900 krónur og var svona á báðum áttum en Sigurrós hafði vit fyrir mömmu og spurði hvort það væri eitthvað gáfulegra að kaupa ódýra skó sem ég væri hundóánægð með og sjá svo alltaf eftir að hafa ekki keypt þessa. Já það er gott að hafa einhvern með sér með viti. Ég keypti skóna og þá var verðið 7.900 krónur. Ég kvartaði ekkert yfir því að þeir væru 1.000 krónum ódýrari en stóð á sýnishorninu. Kannski voru þetta mistök og kannski var þetta tilboð. Ég verð að játa að ég fékk ekkert samviskubit yfir því að kvarta ekki. Ég er hinsvegar svo ánægð með skóna að ég var nærri búin að gera eins og í gamla daga þegar maður fékk nýja skó fyrir jólin – að sofa með þá fyrstu næturnar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Express – Perlan – nýir skór.

  1. Hulla says:

    Já það verður fróðlegt að vita hvernig þetta fer með Icelandexpress. Vona svo innilega að Sigurrós fái endurgreitt það sem hún hefur tapað. Ég fylgist a.m.k spennt með. Kossar héðan

  2. Hulla says:

    Og til hamingju með lyklana til pabba :o)

Skildu eftir svar