Laugardagur til lukku :)

Alltaf gaman að vakna á laugardagsmorgnum – eins og auðvitað alla morgna, en það er alltaf eitthvað sérstakt við laugardagsmorgnana. Þó ekki væri annað en tilhlökkunin yfir að fá krossgátuna í Lesbók Moggans og sitja vopnuð blýanti, með bolla af sterku, góðu kaffi og ráða krossgátuna.

Um hádegið þegar ég var búin með kaffið og krossgátuna þá hringdi Sigurrós og sagði að þau Jói ætluðu að skreppa austur og hún spurði hvort ekki væri fínt ef við grilluðum öll saman um kvöldið því veðrið væri svo gott. Ég var nú aldeilis til í það og dreif í að hræra í vöfflur til að hafa með kaffinu. Guðbjörg og Magnús Már komu svo líka um kaffileytið og með þeim var Karlotta, sem var að koma úr afmæli en Oddur Vilberg var hinsvegar nýfarinn í afmæli. Við vorum svo öll 7 samankomin í kvöldmatnum, en Haukur var í vinnunni.

Það kom nú í ljós að þetta var enginn venjulegur laugardagur og þær systur og tengdasynir voru búin að skipuleggja uppákomu dagsins.

Þau afhentu mér blómum skreyttan afmælispakka. Halló, Halló !!! Ég á ekki afmæli fyrr en í nóvember?

Þau færðu mér nýja Canon Digital myndavél í fyrirfram afmælisgjöf. Þeim fannst, af því að þau voru búin að kaupa gjöfina sem þau ætluðu að gefa mér í nóvember, að það væri bara ekki hægt að geyma hana þangað til því það væri aldrei að vita hvað mamma myndi gera í myndavélamálunum fram að þeim tíma.

Ég er auðvitað alveg í skýjunum yfir þessu og tók af því tilefni mynd af pallinum hjá mér í gærkvöldi þegar sólarlagið var óvenju fallegt. Nokkrar fleiri myndir tók ég líka til prufu.

Þessi mynd er tekin á Auto en auðvitað þarf ég að læra á stillingarnar. Þetta er hvílíkur munur á myndgæðum frá gömlu Digitalvélinni sem ég keypti á tilboði í Essó fyrir einhverjum árum.

Elsku dætur og tengdasynir, ég er ykkur svo ósegjanlega þakklát og segi því TAKK, TAKK, TAKK.

————

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Laugardagur til lukku :)

  1. Anna Sigga says:

    Góð afmælisgjöf!
    Gott hjá börnunum þínum að skipuleggja svona uppákomu. Það er greinilegt hvaðan Sigurrós hefur augað fyrir flottu myndefni! Farðu vel með þig!

  2. afi says:

    Góð gjöf
    Alltaf leggst góðum eitthvað til. Nú eigum við sem lítum hér inn annað kastið von á mikilli flugeldasýningu á næstunni. Er það ekki?

  3. afi says:

    aftur og nýbúinn
    Fallegar myndir hjá þér, tími til kominn að fá góða vél. Þau hafa greinilega vitað hvað kom sér best. En í myndatökum sem öðru verða aðalatriðin stundum aukaatriði og öfugt.

  4. Ragna says:

    Afi er farinn að þekkja ömmuna á Selfossi og veit að nú verður flugeldasýning. Eins og þegar rammarnir voru fundnir upp þá voru allir á þessum bæ settir í ramma næstu dagana á eftir. Nú er bara að læra á gripinn og hafa í huga að enginn verður óbarinn biskup.

  5. Þórunn says:

    Myndavél
    Mikið samgleðst ég þér að hafa fengið þessa fínu myndavél, það fer ekki á milli mála að þetta er gæðagripur. Og svo er bara að smella til hægri og vinstri, á því lærir maður mest.

Skildu eftir svar