Góðir hlutir.

Þá er nú þessi ágæta vika brátt á enda.  Ég fór í bæinn í gær og byrjaði á því að fara með Karlottu og Odd Vilberg til pabba síns en þau áttu að fara með honum til Akureyrar í dag svo þau hafa líklega frá einhverju að segja þegar ég sæki þau í skólann á mánudaginn.

Ég hitti síðan Hauk sem var að ganga frá afsali vegna íbúðasölunnar í Hafnarfirðinum.  Í tilefni af því bauð hann konunni út að borða og var ákveðið þar sem hann var fluttur í Laugarásinn að bjóða í Laugaás.  Mér finnst alveg yndislegt hvað þessi staður heldur sínum uppruna og meira að segja gat ég fundið á matseðlinum fiskigratín, sem mér datt í hug að athuga hvort væri það sama og það sem var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar staðurinn var nýr og við Oddur heitinn fórum stundum að fá okkur að borða þar. Auðvitað valdi ég mér því þetta í gær:
"Lauga-ás special Steiktur fiskur gratín"  Mikið rétt þetta reyndist  nákvæmlega sama uppskrift og bragðaðist nákvæmlega eins og í minningunni.  Svona eiga staðir að vera að hætta ekki með góða rétti bara til að breyta yfir í annað.

Í morgun fór ég síðan með Hauki í smá flakk og hann kom heim úr því flakki með hvílíkar stjörnur í augunum að ég er ekki viss um að hann geti sofnað fyrir næturvaktina í nótt.  Ætli ég smelli ekki mynd í næstu viku þegar hann kemur austur ef ævintýrið hans endar vel.

Guðbjörg og Magnús Már komu og fengu kaffi á Austurbrúninni og svei mér þá ef þau voru ekki með stjörnur í augunum líka þegar þau komu.  Já það er nú meira hvað það er mikið að gerast í kringum mig þessa dagana.

IMG_0180

Ég ók hins vegar austur í rigningarsudda og þoku og sá engar stjörnur á leiðinni en hinsvegar veit ég að þær eru allar þarna uppi og vonandi ekki langt þar til ég get séð þær.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Góðir hlutir.

  1. Ragna says:

    Mikið eru allir alvarlegir. Ætli mínir nánustu séu búnir að fá nóg af þessum eilífu myndatökum???

  2. Hulla says:

    ???
    Ok nú er ég ekki allveg að fylgja með?? Ég er kannski bara svona treg. Hvaða flakk fórstu með pabba í. Og hvaða ævintýri ertu að tala um Ragna?? Kveðja frá öllum hér

  3. Þórunn says:

    Spennandi líf
    Heil og sæl Ragna mín, það er alltaf jafn gaman að lesa um ævintýrin þín, sérstaklega þar sem þau enda yfirleitt svo vel. Ég hlakka til að vita hvaða ævintýri er nú í uppsiglingu.

  4. Ragna says:

    Það tókst að vekja forvitni.
    Hulla mín, ég fór ekki með pabba þinn heldur með honum. Við erum ekki að flytja til Ástralíu eða neitt svoleiðis og sjálfsagt finnst öðrum það ekkert merkilegt sem í gangi er. En ég á eftir að segja frá þegar líður á vikuna.

Skildu eftir svar