Bernskuminning – óvitaskapur.

Þegar ég sit við gluggann hjá honum Hauki á 11. hæð og horfi yfir gamla hverfið mitt fer ekki hjá því að margar minningar komi í hugann. Ég var að reikna það út að ég hef samtals búið á Kambsveginum í 47 ár svo það er kannski ekki skrítið að margar séu minningarnar.

Hann Guðmar heitinn sem bjó hinu megin við götuna átti tvær stórar rútur. Hann leyfði okkur krökkunum, sem vorum svona á aldrinum fimm til sjö ára þegar það sem ég ætla að segja ykkur frá gerðist, oft að koma með sér niður á BSÍ sem þá var niðri í miðbæ.

Einn slíkan morgun þegar við krakkarnir höfðum verið að sniglast í kringum hann þá lofaði hann að við fengjum að koma með honum í rútunni ef við fengjum leyfi heima. Það var auðsótt að fá það leyfi og við komum okkur fyrir í rútunni og biðum eftir Guðmari. Þegar hann var kominn og var búinn að setja rútuna í gang þá kom síðasti guttinn hlaupandi og nú var ekkert því til fyrirstöðu að leggja af stað. 

Guðmar ók rólega niður Kambsveginn í átt að Kleppsveginum. Við sem sátum í aftursætinu tókum eftir því að pósturinn okkar hljóp á eftir rútunni og baðaði út öllum öngum. þetta fannst okkur voða fyndið og eftir að hafa fylgst með þessu nokkra stund þá kölluðum við til Guðmars og sögðum að pósturinn væri að sprella í okkur. Hann grunaði hinsvegar að ekki væri allt með felldu og stöðvaði rútuna rétt áður en beygja átti inn á Kleppsveginn. 

Það var eins gott að hann brást fljótt við því það var sko ekkert sprell í gangi, heldur gat pósturinn rétt stunið því upp í mikilli geðshræringu að lítil stúlka væri bundin við rútuna og drægist með henni.

Það kom sem sé í ljós að sá sem kom á síðustu stundu í rútuna hafði verið seinn fyrir af því að hann var upptekinn við að binda litlu systur sína aftan í rútuna, en það gerði hann ekki fyrr en  Guðmar var kominn inn í bílinn og sá ekki til.

Það mátti litlu muna að þarna yrði stórslys. Litla stúlkan marðist og fékk skrámur, því ekki var nú búið að mallbika neitt á þessum tíma, en hún slasaðist ekki alvarlega. En mig minnir hinsvegar að guttinn hafi átt erfitt með að sitja næsta dag og jafnvel daga.

Þetta var hræðilegt uppátæki en auðvitað óvitaskapur og þessi drengur, sem ég ætla nú ekki að nafngreina, varð góður og gegn borgari en þessu hefur hann sjálfsagt ekki gleymt frekar en við hin sem þennan morgun áttum að fá að fara á BSÍ.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bernskuminning – óvitaskapur.

  1. Sigurrós says:

    Sögurnar
    Þær eru ófáar sögurnar sem ég fékk að heyra úr þinni barnæsku og líka úr barnæskunni hennar ömmu. Hvernig væri nú að við förum að skrá þær einhvers staðar niður svo þær gleymist ekki? Það væri hægt að gera góða bók með þessum sögum 🙂

  2. Mamma says:

    Gömlu endurminningarnar.
    Hér erum við alla vega komnar með eina af þessum gömlu. Hver veit nema ég bæti við seinna.

  3. Sigurrós says:

    Þurfum líka að skrá niður sögurnar hennar ömmu – þegar hún faldi sig undir borðinu í farkennslutímanum og gretti sig og fleiri góðar. Sko maður er strax búinn að gleyma svo miklu að þetta er sú eina sem poppar upp í hugann svona án umhugsunar…

  4. afi says:

    Þetta var mögnuð saga, mættum við fá meira að heyra.

Skildu eftir svar