Valið var SÆLUKOT engin spurning.

Í gær var skólinn hjá krökkunum bara til hádegis því kennararnir voru allir á leið á kennaraþing á Flúðum og þar með talin auðvitað Guðbjörg og Magnús Már  Í dag var svo frí. Við höfðum því sólarhring til þess að gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég settist niður með þeim þegar við vorum komin hérna í Sóltúnið í gær og settum á lista ýmislegt sem við gætum gert næsta sólarhringinn. Það komu fram ýmsar tillögur eins og að fara í Eden, í bíó, í fjöruferð og eitthvað fleira smálegt. Ég kom ekki með tillöguna mína fyrr en afi kom austur til þess að gera þau ekki of spennt en þá spurði ég hvort nokkurn langaði til að fara í Sælukot og gista? Það kom heilmikið J a a a há. Svo að  ÞETTA VAR ÁKVEÐIÐ.  Á meðan Karlotta fór á kóræfingu þá tókum við okkur til og svo var brunað í sveitasæluna

IMG_0237

Það var yndislegt haustveður og alveg blæjalogn eins og sést hérna á myndinni. Þetta er í fyrsta skippti eftir að framkvæmdirnar hófust í vor, sem ég gisti í bústaðnum. Það er mikill munur að vera nú komin með heitt vatn og rafmagn, sem undirrituð stóð nú reyndar lengi gegn því hræðslan við sjónvarp og fleira í þeim dúr var mikil. Síðan kom í ljós að fleiri voru líka á þeirri skoðun að í sumarbústað ætti ekki að sitja og horfa á sjónvarp eins og heima heldur hafa samskipti með spilum, lestri og öðrum góðum hlutum svo það hefur ekkert breyst til hins verra, bara allt orði miklu þægilegra.

Trampolínið var það sem mest hafði aðdráttaraflið þegar við komum enda leikfangið skemmtilegt og veðrið var svo gott.

IMG_0230

Síðan fórum við inn og þau fóru að lita og klippa út dúkkulísur.

IMG_0239

Kvöldið var fallegt en nóttin köld og Hekla hímdi með hvítan kollinn sinn í fjarska.

IMG_0245

Við komum svo heim eftir hádegi í dag hress og kát og allir voru ánægðir með að hafa valið Sælukot í fyrsta sæti.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Valið var SÆLUKOT engin spurning.

  1. Sigurrós says:

    Hefði gefið mikið fyrir að vera með ykkur í sveitasælunni! Verð endilega að fara að komast í huggulega Sælukotsferð með vænan bókastafla.

  2. Þórunn says:

    Krakkarnir hafa valið vel að fara í Sælukot, auðséð að þau hafa notið þess. Mikið er fallegt að sjá lækinn svona lygnan fyrir neðan húsið.

Skildu eftir svar