Bernskuminning – bruni

Það var ekki mikill borgarbragurinn á Kleppsholtinu í gamla daga. Húsið okkar var þó með ákveðnu götunúmeri, en húsin á holtinu hétu mörg einhverjum nöfnum eins og Laufholt, þar sem flest voru börnin, Bjarnastaðir, Fjall og Staðarhóll, svo eitthvað sé nefnt. Það voru líka nokkur hesthús inn á milli húsanna. Eitt var þar sem gæsluvöllurinn við Kambsveg er núna.

Það gerðist einn góðviðrisdaginn þegar strákarnir vissu ekki upp á hverju þeir ættu að taka, að þeim áskotnuðust eldspítur. Ekki veit ég nú með hvaða hætti það var en þeir voru hvílíkt roggnir með sig þegar þeir sýndu okkur stelpunum hvað þeir væru nú miklir menn og þeir skiptust á að ganga um með stokkinn í vasanum.

Við létum þetta nú ekki raska ró okkar og héldum áfram kökubakstrinum og skreyttum flottu moldarkökurnar með Baldursbrám og Blóðbergi og við létum sem okkur þætti það ekki merkilegt að ganga með eldspítustokk í vasanum. Svo leið tíminn fram yfir hádegi í friði og spekt og sinnti hver sínu.

Allt í einu var kyrrðin rofin. Einhver kom hlaupandi og sagði að það væri reykur upp úr hesthúsinu. Það var strax hringt á slökkviliðið og fljótlega heyrðist sírenuvæl í fjarska sem færðist síðan nær og nær. Allir vildu fylgjast með. Litlar telpur með slaufur í hárinu voru hálfskælandi, bæði af spenningi og líka af því að fínu kökunum sem þær voru að enda við að skreyta hafði verið rutt um koll. Mömmurnar í morgunkjólunum sínum með hvítu svunturnar, sem oftar en ekki voru smekklega saumaðar úr hveitipokum sem sprett hafði verið upp og lagt í klór,  ræddu sín á milli hvernig á því stæði að kviknað hafi í. Færri veittu því athygli að nokkrir ungir drengir hlupu í felur og vildu greinilega ekki láta sjá sig nálægt vettvangi.  Brunaliðið kom með miklu væli og brunaliðsmennirnir í svörtu gúmmíkápunum sínum, sem staðið höfðu sitthvoru megin á brunabílnum á leiðinni, stukku niður af bílnum og skiptu liði. Nokkrir þustu að hesthúsinu til að bjarga út þremur hestum sem þar voru en hinir fóru í að tengja stóru slöngurnar við brunahanann sem hafði staðið þarna án þess að hafa verið veitt mikil eftirtekt fram að þessu.
Eldurinn var sem betur fer ekki kominn í sjálft hesthúsið heldur hafði hann kviknað í áfastri lítilli hlöðu svo hestana hafði ekki sakað. Svo var dælt og dælt vatni þar til enginn eldur var lengur til staðar.  

Lögreglan kom og hún hafði ekki verið lengi á staðnum þegar böndin bárust að litlu pörupiltunum sem um morguninn höfðu verið svo roggnir með sig, en enginn hafði séð til þegar slökkvilið og lögregla var komið á staðinn.  Þeir fundust þó fljótlega og urðu heldur lúpulegir og bæði andlit og buxur urðu vot þegar lögreglan talaði við þá og það leið nokkuð langur tími þar til þeir urðu roggnir með sig aftur.

En prakkarastrikum þeirra var þó fjarri því lokið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bernskuminning – bruni

  1. Hulla says:

    :o)
    Æ!! Ég elska svona gamlar sögur. Geturu ekki gefið út smásögubók.´
    Þú átt greinilega fullt af fallegum minningum. Kveðja frá öllum hér

  2. Ragna says:

    Ég veit nú ekki alveg hversu fallegar þessar bernskuminningar eru, en það er svo oft sem eitthvað rifjast upp frá þessum gamla tíma.

  3. Þórunn says:

    Eldur
    Það hefur aldrei gefist vel að leika sér að eldinum, það sanna dæmin en mikið aðdráttarafl hefur hann haft á unga drengi svo lengi sem ég man. Þetta er lifandi frásögn hjá þér Ragna og ég get varla gert upp á milli þín, sem ljósmyndara eða rithöfundar.

  4. afi says:

    Það er greinilegt á öllu, að við fáum meira að heyra af þessum pörupiltum. Þakka þér fyrir þessa, hún var góð og vel skrifuð.

Skildu eftir svar