Bernskuminning – brúðan.

Eins og alltaf þegar fer að nálgast jól koma upp margar minningar um bernskujólin.  Þessi minning sem ég ætla að deila með ykkur er nokkuð sem mamma mín sagði mér um sjálfa mig.

Kannski koma sögur í þessum dúr upp í hugann þegar maður skoðar alla auglýsingapésana sem berast inn um bréfalúguna á hverjum degi. Óteljandi hugmyndir til að gefa börnunum, sem flest eiga reyndar svo mikið dót í dag að þau vita ekki sitt rjúkandi ráð.

Hér kemur samt sagan af litlu frekjunni.

Þetta mun hafa verið á jólum þegar ég var á þriðja ári. Systir mín hafði lengi þráð að eignast fallega brúðu, en það var nú þannig á stríðsárunum og fyrst á eftir að það var ekki auðvelt að fá slíkan varning. En loks runnu upp þau jól að systir mín fékk stóra fallega brúðu í jólagjöf. Pabbi linnti ekki látum fyrr en hann hafði getað útvega þessa brúðu til að gefa henni. Ég man nú ekki hvað ég fékk sjálf þessi jól en það hefur örugglega verið eitthvað sem þau vissu að mig langaði í.  Fram að þessu hafði aðal aðdráttarafl mitt verið gamla brúðan hennar systur minnar, hún var úr tusku en hausinn úr gifsi eða einhverju slíku efni sem mér fannst svo fínt, en ég átti á þessum tíma dúkku sem var bara heimasaumuð úr tusku, hausinn líka. Eðlilega var ekki mjög vinsælt að litla systir væri að tuskast með brúðuna með brothætta hausinn því hún gæti skemmst.

Hinsvegar var stóra systir mín svo góð að hún gaf þeirri stuttu gömlu brúðuna sína um leið og hún hafði fengið þá nýju úr pakkanum á aðfangadagskvöld.  Litlu systur þótti þó lítið til þess koma því sú nýja var enn glæsilegri, svona alvöru með hár og allt.  Gaman að fá að koma aðeins við hana svona fína.

Á aðfangadagskvöld þegar sú stutta átti að fara að sofa fékk hún að hafa gömlu brúðuna hennar systur með sér í rúmið. Brúðu sem hún hafði alltaf sótt í að fá að leika sér með, en nú hafði eitthvað breyttst. Eftir stutta stund í rúminu var sú stutta farin að gráta og mamma kom inn og spurði hvort hún væri ekki ánægð með að eiga nú þessa fínu dúkku? Nú jókst gráturinn til muna og mamma tók þá eftir því að brúðan var hvergi sýnileg og spurði hvar hún væri. Svarið sem hún fékk á milli ekkasoganna var: "Hún er dauð undir rúmi" 

Þessa sögu fékk ég oft að heyra. En það er um brúðu systur minnar að segja að hún lenti ekki dauð undir rúmi því hún hefur alla tíð fylgt henni og á þar enn sinn sess.

Ég fékk hins vegar seinna fallega litla brúðu sem ég á enn og þó að kjóllinn og húfan sem mamma heklaði á hana sé farið að gulna  og tærnar á henni orðnar svolítið lúnar, þá á hún ennþá sinn sess hjá mér.

Ég stökk yfir til hennar systur minnar í dag og tók þessa mynd af fínu dúkkunni hennar. Hún er reyndar ekki í upprunalega kjólnum því hún fékk ný föt  þegar hún varð stofustáss fyrir allmörgum árum.

Dúkkan hennar Eddu systur minnar.

Hérna kemur svo mynd af litlu dúkkunni sem ég fékk nokkrum árum síðar.
Þetta er eina búðardúkkan sem ég eignaðist.

IMG_0437

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bernskuminning – brúðan.

  1. Svanfríður says:

    Halló
    Þetta var yndisleg saga Ragna og þakka þér fyrir að hleypa manni inn í bernsku þína. En þessi saga sýnir það líka að börn breytast ekki, hvaðan sem þau eru eða á hvaða tíma þau eru börn. Kv. Svanfríður

  2. afi says:

    Falleg saga
    Ef það ekki um jólin sem bernskan kemur upp í hugann, þá hvenær? Það góða við þessa sögu er að brúðurnar skulu enn vera ¨lifandi¨ en ekki dánar undir rúmi eða annarstaðar. Þakka þér fyrir að fá að njóta þessara minninga með þér.

  3. Þórunn says:

    Jólasaga
    Mikið var þetta hugljúf saga og gaman að sjá myndirnar, það er einstakt að þessar brúður skuli ennþá vera til. Ég hlakka til að sjá myndina af brúðuhúsinu sem pabbi þinn gerði.

  4. Linda says:

    Falleg saga og dúkkurnar algerar gersemar.. Þær líta ótrúlega vel út og eru alveg ekta.. Mig skal ekki undra að þið systur hafið haldið upp á þær.

Skildu eftir svar