Gömludansar og ádrepa á Selfossbúa.

Jæja, þá er nú helgin á enda. Þetta hefur verið mjög góð helgi þó að rétt í þessu sé ég að þurrka af mér skælurnar eftir að horfa á síðasta þáttinn af Breska myndaflokknum Norður og suður á RUV. Hvílík stigmögnuð rómantík sem auðvitað endaði með hjartnæmum hætti og skælum í lokin.

Í gærkvöldi voru hinsvegar engar skælur í gangi.  Guðbjörg og Magnús komu og borðuðu með okkur lambahrygg og síðan skelltu gömlu brýnin sér út í Bása á þetta líka fína harmonikuball.
Það er nú ekki hægt að segja að það hafi verið margmenni, sem okkur finnst reyndar ágætt því þá er meira pláss á dansgólfinu og engir árekstrar eða pústrar þegar polkarnir eru sem hraðastir. en verra er að harmonikufélögin eru að reyna að halda þessum gamla sið að spila fyrir dansi og svo nennir fólk ekki að mæta til að halda þessu gangandi.

Það sem mig undrar mest, er að þeir sem mættu á ballið voru aðallega gömludansafólkið af höfuðborgarsvæðinu sem lét sig hafa það að aka í svartaþoku austur til að  komast á gömludansaball. Sárafáir voru héðan af Selfossi, aðallega þó makar og þeir sem tilheyrðyu spilurunum. Þetta finnst mér til skammar fyrir Selfossbúa og mest langar mig til að skrifa í bæjarblöðin og skamma samborgara mína hér.  En líklega brestur mig kjart til slíks.  

Öðruvísi mér áður brá þegar við Oddur heitinn vorum að koma hérna austur og fara með Eddu systur minni og Jóni á mannmörg og fjörug böll í Selfossbíói og Tryggvaskála.  Þá var sko dansað við harmonikuspil af fullum krafti.  Hvar er þetta fólk í dag? Margt af því ætti að vera á mínum aldri.  Situr það bara heima og veltir sér upp úr því að vera ekki ungt ennþá. Öll eldumst við, en þeir sem dansa gömludansana eins oft og mögulegt er, eldast mun hægar en aðrir.  Þetta sjáum við á því fólki sem við erum meira og minna búin að hitta í dansinum í yfiir 15 ár. Þetta er lífsglatt fólk sem heldur sér liðugu með því að dansa og ekki bara liðugu því dansinn hefur svo sannarlega áhrif á andann líka og léttir lundina.

Við vorum svo heppin að frétta að það ætti að vera ball hjá Harmonikuunnendum í Reykjavík í Ásgarði næsta laugardag.  Engar áhyggjur, ég verð komin heim fyrir netkaffið á sunnudaginn.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Gömludansar og ádrepa á Selfossbúa.

  1. afi says:

    Skammast og ragna.
    Bara ekki falla í sömu gryfju og prestarnir að kvarta við þær fáu sálir sem mæta við athöfnina. Eða í þessu tilfelli skrallið, meina ballið.

  2. Ragna says:

    Tilgangslaust tuð
    Hárrétt hjá þér afi. Ég var fyrir nokkrum áratugum í messu þar sem klerkurinn las skammirnar yfir okkur þessum fáu hræðum sem voru viðstaddar og það varð til þess að við sóttum ekki messur oftar hjá þeim ágæta klerki. Þessvegna var ég nú að hæla þeim sem lögðu það á sig að koma langan veg á ballið. Svo vita hinsvegar þeir sem heima sátu auðvitað ekkert að ég er að þessu tuði hér svo vitanlega er þetta alveg tilgangslaust.

  3. afi says:

    Hver veit?
    Hver veit nema þessi skrif þín hitti fyrir einhvern eða einhverja fótfúna gömludansadansara sem hugsa sig tvisvar um og álpast af stað á næsta ball í stað þess að sitja heima. Hver veit?

Skildu eftir svar