Sumir betri en aðrir.

Það er með dagana eins og mannfólkið, að allir eru góðir en óhjákvæmilega eru sumir betri en aðrir.

Ég fékk langt og  skemmtilegt símtal í morgun sem ég var mjög ánægð með og var gott upphaf á góðum degi.   Síðan hringdi besta vinkona mín. Hún sagðist vera búin að hringja og hringja en það hafi bara alltaf verið á tali.  Það var auðvitað ekkert skrítið að það hafi verið á tali eftir langa góða símtalið mitt.  Ekki hafði nú vinkonan erindi sem erfiði loksins þegar hún náði sambandi við mig, því rétt í því að fyrra símtalinu lauk þá kom Kristín nágrannakonan mín í heimsókn og af því að hún er nú ekki daglegur gestur hjá mér þá vildi ég ekki vera í símanum á meðan hún drakk með mér kaffisopa.

Nú var komið  hádegi og tími til að sækja ömmustubbinn sem kom einn til ömmu í dag.  Við byrjuðum á því að kúra okkur í Lazyboy  og amma fékk að heyra hvað hann hefði verið að gera í skólanum.  Svo tjáði hann ömmu að hann væri alveg rosalega svangur því fiskurinn hefði verið ógeðslegur sem hann hafi fengið í skólanum.  Amma hélt smá fyrirlestur um hollustuna við að borða fisk. Stubburinn hlustaði á fyrirlesturinn en sagði síðan að fiskur væri samt ógeðslegur. Amma mundi þá eftir því að þegar hún var stelpa þá var ekki búið að borða mikið af fiskinum þegar spurt var hvað væri í eftirmat, Þá var auðveldara að klára fiskinn því eftirmatinn fékk maður ekki fyrr en búið var að klára af diskinum svo það var þess virði að leggja nokkuð á sig. Það var ekki fyrr en miklu seinna sem amma fór að elska fiskinn og pantar hann í hvert sinn sem henni er boðið út að borða.   Í dag eru flestir hættir að vera með eftirmat svo það er kannski skiljanlegt að það sé erfiðara fyrir börnin að borða fiskinn núna heldur en það var í gamla daga. 
Eftir þessar vangaveltur  fór amma að vorkenna stubbnum svoldið,  án þess þó að viðurkenna röksemd hans, og við fórum saman inn í eldhús og fundum hitt og þetta til að seðja þetta sára hungur sem hrjáði unga manninn.  Hann var því sæll og glaður með úttroðinn maga þegar hann stóð upp frá borðinu, fékk lánaðan bolta og fór út á pall að "tripla" eins og  hann kallaði það, en amma hefur aldrei verið góð í boltamálunum.

Þegar stubburinn var kominn til síns heima var síðan hressandi að fara í vatnsleikfimina og heita pottinn. Ætli maður kíki svo ekki á íslenska piparsveininn  á Skjá 1 í kvöld. þó ekki sé til annars en að tala um það við sjálfan sig hvað þetta sé nú fáránlegt.

P.S. Já, ég má ekki gleyma að láta vita af því að ég ætla að fresta Netkaffinu. Hve lengi veit ég ekki,  en eitt er víst,  að ég er ekki búin að gefa það upp á bátinn. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sumir betri en aðrir.

  1. afi says:

    Merkilegt apparat þessi sími. Enn merkilegra er netið. Flestum þykir þó lítið til þessara hluta koma. En þeir sem eru eldri en tvævetur og hafa lifað tímana tvenna finnst þetta vera þræl merkilegt.

Skildu eftir svar