Atburðir helgarinnar…

Já, hefst þá lesturinn.

Ég ók sæl og glöð yfir Hellisheiðina og nýja veginn í bæinn á föstudaginn og beint í gamla hverfið mitt sem er nú nýja hverfið hans Hauks. Fyrsti stans var hárgreiðslustofan á Laugarásveginum. Hárgreiðslukonan sem ég var vön að fara til var ekki við en ég var svo heppin að systir hans Magnúsar Más, sem er þar tímabundið,  tók þar á móti mér og ég lagði höfuð mitt í hennar hendur.  Þegar ég gekk út tveimur klukkustundum síðar var ég orðin sem ný manneskja og tilbúin að takast á við lífið í borginni.

Haukur varð auðvitað svo hrifinn af nýju konunni að hann bauð henni umsvifalaust í fiskigratín á Laugaás um kvöldið. Ekki amalegt það.
Síðan lá leiðin í Kópavoginn til Sigurrósar og Jóa og í staðinn fyrir að þurfa að láta þau hjálpa mér með tölvumál þá hjálpaði Haukur þeim í þetta skiptið að hengja upp ýmislegt sem beið þess að komast upp á vegg. Þau eru nefnilega með steinveggi sem ekki er hægt að negla í.  Auðvitað fengum við svo þetta fína kaffi sem við drukkum úr listaverkabollunum sem þau fengu í brúðargjöf í sumar.

Nú var kominn laugardagur. Við vorum snemma á fætur og fórum í Rúmfatalagerinn. Þar fékk  Haukur kappa til að setja fyrir stofugluggann.  Síðan sagði ég skilið við Hauk í bili og smellti mér í saumaklúbb til hennar Eddu minnar Garðars.  Að vanda var mikið hlegið og mikið borðað. Svona eru nú saumaklúbbarnir okkar orðnir í dag, borða og hlæja. Meira að segja Sonja tók sér frí frá prjónaskapnum.

Ég varð svo að grynnka eitthvað á öllu kaloríuinntakinu eftir saumóinn,  svo við Haukur fórum í góðan göngutúr í Laugardalnum. Svo hélt ég áfram að láta dekra við mig og sat í makindum á meðan Haukur eldaði matinn og bar hann fyrir mig.  Mikið rosalega er nú notalegt að láta bara snúast svona í kringum sig – alla vega svona stundum, ef það væri alltaf þá myndi maður hætta að taka eftir því hvað það er dásamlegt.

Nú var komið að rúsínunni í pylsuendanum. Gömludansarnir í Glæsibæ.  Það var vel mætt á ballið og  það var ekki fjarri því að vera hálfgerð Ártúnsstemmning því það var svo mikið af gömlu dansfélögunum á svæðinu. Þarna hoppuðum við og skoppuðum frá klukkan tíu og fram eftir nóttu og það lá við að ég væri svo þreytt í fótunum að það var varla að ég gæti haldið fætinum á bensíngjöfinni á leiðinni heim, þó það væri nú ekki langt að fara.

Eftir góðan nætursvefn fórum við að huga að austurferð. Fyrst kom ég við hjá Immu, föðurömmu barnabarnanna minna, drakk hjá henni kaffisopa og síðan var förinni heitið áfram í austurátt.

Þó ég sé komin heim í kotið mitt þá er nú ekki þar með sagt að dekrið sé úr sögunni. Okkur var boðið í kaffi og ostaköku hjá Guðbjörgu og Magnúsi Má  og þar  hittum við  nöfnu mína, mömmu Magnúsar sem var komin frá Akureyri í borgarferð með Heiðbjörtu Rögnu, ömmustelpunni sinni sem var að koma til að vera í nokkra daga hjá mömmu sinni, Hönnu, en það var einmitt hún sem gerði mig svo fína í hárgreiðslustofunni á föstudaginn.

Ekki er nú allt búið sem heitir dekur þessa helgina,  því í þessum töluðu orðum hringdi Guðbjörg svo í mig aftur bauð okkur að koma í fiskisúpu hjá þeim í kvöld.

SmileÉg segi bara TAK, TAKK, TAKK við alla sem hafa dekrað við mig þessa helgi. Ég lagði upp með það að eiga skemmtilega og góð helgi og það hefur svo sannarlega gengið eftirSmile

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Atburðir helgarinnar…

  1. afi says:

    Dekurrófa
    Þetta hefur verið viðburðarrík helgi hjá þér. Ef einhver á skilið smá ofdekur stöku sinnum þá ert það þú.

  2. Ragna says:

    Skilið og ekki skilið.
    Það er alltaf gott að láta dekra svolítið við sig og dekra smá við aðra en hvort maður á það skilið það er annað mál.
    Þakka þér samt fyrir hlýjar hugsanir afi sæll.

Skildu eftir svar