Yfir 40 ára saga úr saumaklúbbnum.

Svona í framhaldi af því sem við vorum að spjalla  í saumaklúbbnum á laugardaginn, en nú erum við orðnar svo "gamlar" stelpurnar að við erum farnar að rifja ýmislegt upp, þá ætla ég að koma með eina góða sögu af okkur.

Eitt er það sem engin okkar gleymir, en það er sagan af því þegar við ákváðum fyrst að safna í smá sjóð til þess að gera eitthvað skemmtilegt fyrir í lok klúbbársins.

Ég man nú ekki hvaða upphæð við borguðum í sjóðinn i hvert sinn sem við hittumst en um vorið áttum við alla vega nóg til þess að fara saman fínt út að borða. Þá var Naustið eitt það fínasta sem hægt var að hugsa sér og  því ákveðið að þangað skyldi förinni heitið. Ekki spillti fyrir, að Haukur Mortens spilað og söng fyrir matargesti.

Við tíndumst nú  á staðinn svona ein og ein eða tvær og tvær og þegar allar voru mættar röðuðum við okkur við borð og pöntuðum matinn og nutum þess að vera saman og mikil kátína ríkti í hópnum. Ég man þess vegna að okkur fannst skrítið þegar Sonja bað Hauk Mortens  um að syngja  Til eru fræ  "af því að það væri svo fallegt að hún færi alltaf að gráta þegar hún heyrði það".  Við hinar vorum nú ekki í stuði fyrir grát svo hún grét bara ein yfir söngnum. 

Ekki vissum við síðan hvort við ættum að hlæja eða gráta þegar kom að því að borga reikninginn. Sonja, sem var gjaldkeri vetrarins sagðist þurfa að fara fram í fatageymslu og sækja peningana.  Við spurðum  hvort hún væri galin að geyma peningana í fatageymslunni ???  Nei,nei, hún sagðist hafa beðið konuna í fatageymslunni að geyma þá fyrir sig.  Við litum nú bara hver á aðra.  

Eftir nokkra stund kemur Sonja askvaðandi inn með stærðar skókassa undir hendinni og slengir honum á borðið.  Mikið vildi ég eiga þetta á videomynd, og Sonja er mjög ákveðin og röggsöm kona.  Í kassanum voru öll samskot vetrarins. Það var óborganlegur svipurinn á aumingja þjóninum sem nú átti það starf fyrir höndum að telja peningana okkar.

Það leið langur tími þangað til maður vogaði sér að fara í Naustið aftur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Yfir 40 ára saga úr saumaklúbbnum.

  1. afi says:

    Þetta var góð saga sem gæti varla gerst í dag.

  2. Ragna says:

    Alltaf eitthvað nýtt.
    Nei, satt er það og þetta er nú bara brot úr hversdagslífinu. Við sem erum fædd fyrir miðja síðustu öld eigum mörg minningarbrot sem unga fólkinu í dag finnst ótrúleg. Alveg eins og okkur fannst ýmislegt skrítið þegar foreldrar okkar voru að segja frá ýmsu úr þeirra ungdæmi. Hvað ætli barnabörnin okkar geti sagt frá þessum tíma núna, sem þarnæstu kynslóðum þykir ótrúlegt? Það er erfitt að átta sig á því í dag í okkar tæknivædda þjóðfélagi en það kemur jú alltaf eitthvað nýtt, nýir siðir og ný tækni.

  3. Eiki says:

    Ja þú ættir nú að sjá svipinn á mínum drengjum þegar ég segi þeim að það hafi ekki verið til t.d Gsm,DVD eða playstation2. Ég hugsa að það verði alltaf þannig, eldra fólkið að segja því yngra hvað var nú ekki til þegar þegar það var á sínum yngri árum. Ég sjálfur er nú ekki nema rétt skriðin yfir fermingu og hef oft gripið sjálfan mig af því að segja mínum drengjum frá því hvað ekki var til þegar ég var að alast upp. 🙂 kv Eiki

  4. Linda says:

    Gamlir tímar
    Lang-afi minn hafði oft á orði að gúmmístígvél væru besta uppfinning samtímans..
    Ég trúði því lengi vel og þegar ég var 6 ára fékk ég ný stígvél fyrir veturinn.. Stoltið yfir að eiga þessa bestu uppfinningu varð til þess að enginn fékk mig úr þeim.. ég svaf í þeim fyrstu næturnar..

    Það hefur sko margt breyst á dögunum..

  5. Ragna says:

    Já Linda, við fengum minna í þá daga og kunnum því betur að meta. Ég kannast við þetta að vilja sofa með hlutina, svaf með nýjú jólaskóna mína á þessum aldri.

  6. Ragna says:

    Ekki hætta að blogga.
    Bara ein spurning Linda. Ertu nokkuð hætt að blogga? Ekki gera það.

  7. Linda says:

    Ég er sjálfsagt ekki sama Linda og þú hefur í huga..
    Er einhver allt önnur og skrifa nokkuð reglulega á bloggið mitt.. 😉

  8. Linda says:

    Ég skrifa stundum á síðuna hjá „afa“ og var eytt sinn að skoða umhverfi hans..
    Þar sá ég að þú skrifaðir til hans líka og svo fallega.. Langaði að skoða betur þín skrif og hef hrifist.. er nánast daglegur gestur hjá þér í dag..
    „Fyrrverandi gluggagægir“ manstu??

Skildu eftir svar