Kvennafrídagurinn.

Ég tók nú ekki þátt í kvennafrídeginum eins og til var ætlast, frekar en fyrir 30 árum. Ég var hinsvegar löglega afsökuð þá þar sem ég bjó í Englandi.

Ég hef nú aldrei verið nein Rauðsokka, enda heppin með vinnuveitendur á meðan ég starfaði utan heimilis og heima naut ég  þess sjálf að dekra svolítið við bóndann þegar hann kom þreyttur heim úr vinnunni. Þó ég ynni á þeim tíma sjálf úti allan daginn þá var eitthvað svo sjálfsagt að elda matinn þegar maður kom heim og færa svo bóndanum kaffið inn í stofu eftir matinn, þar sem hann sat og las dagblöðin. Ég var svo heppin að eiga mann sem kunni að meta það, að eiga fallegt heimili og konu sem dekraði smá við hann svo við vorum bæði ánægð með þetta fyrirkomulag. Þetta var bara tíðarandinn um 1964 og áfram næstu árin.

Þegar ég loksins eignaðist svo Guðbjörgu kom ekki annað til greina en að hætta að vinna og sinna barninu. Hætta að vinna hét það að vinna ekki úti. Ég var hinsvegar með bókhald fyrir þrjú fyrirtæki sem ég vann við heima – en það flokkaðist ekkert undir það að vera að vinna, af því ég gerði það ekki á skrifstofu úti í bæ.   Ég var oft spurð að því hvernig ég gæti hugsað mér að vera svona heima, hvað ég væri eiginlega að gera og hvort mér leiddist ekki ?

Ég sagði að það væri ekki hægt að láta sér leiðast þegar maður væri að hugsa um heimili, barn og  mann, baka, sauma á sig og barnið föt, prjóna og bródera, mála og veggfóðra þegar þess var þörf (ég elskaði að veggfóðra), fyrir utan heimavinnuna, bókhaldið. Hvernig átti maður að geta látið sér leiðast.

Ég fór ekki að vinna utan heimilis fyrr en 10 árum síðar. Ég tel  ekki með það sem ég vann nokkra tíma í viku, við að  sjá um skrifstofu Lögmannafélags Íslands, sem þá var í tveimur herbergjum á Óðinsgötunni og bara opið þrjá daga í viku.

Allt er þetta nú gott og blessað og ég átti eftir að hella mér út í mikla vinnu síðar – allt of mikla stundum.
Það er kannski ekki merkilegt sem maður hefur tekið sér fyrir hendur um dagana en það  sem mér finnst standa framar öllu öðru sem ég hef tekið mér fyrir hendur er það, að hafa haft tækifæri til þess að sinna sjálf uppeldi dætranna og koma þeim svona vel til manns, þrátt fyrir ýmis áföll sem við urðum fyrir  á uppvaxtarárum þeirra.

Hvað getur verið merkilegra í lífinu en að takast vel til með börnin sín? Í mínum huga ekkert.

Ég set hérna inn nokkrar myndir sem ég tók í dag þegar við Karlotta og Oddur Vilberg fórum í göngutúr hérna niður að Ölfusánni. Niður í fjöru- eins og þau kalla það.  

Ég læt eina fylgja hérna með:

IMG_0368

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Kvennafrídagurinn.

  1. afi says:

    Tíðarandinn er allt annar í dag. Það hefur margt breist síðan. T.d. fæðingarorlof o.fl. Það þekktist ekki meðan amma og afi voru í sínu barna stússi. Sem betur fer hefur margt breist til batnaðar. En betur má ef duga skal. Ætli þú hafir ekki háft í nógu að snúast Þrátt fyrir allt. A.m.k. eru myndirnar þínar skemmtilegar og góðar.

  2. Hulla says:

    Breyttir tímar
    Tímarnir hafa breyst rosalega. Nú er bara ekki sjálfsagt (þó að það ætti að vera það) að kona sé heimavinnandi og sinni uppeldi barna sinna. Enda finnst mér erfitt að ætla að lifa á einum launum á Íslandi í dag. En frábærar myndir og þín barnabörn eru mjög heppin að eiga heimavinnandi ömmu. (það er ekki algengt í dag)

  3. Ragna says:

    Já, tímarnir eru svo sannarlega breyttir og skömm að því að enn skuli ekki vera komið launajafnrétti. En spurningin um að láta ein laun duga var sú sama þá og nú og það var sparað í öllu til að dæmið gengi upp. Kröfurnar í dag eru hins vegar allt aðrar og meiri sem vonlegt er með breyttum tíðaranda.

  4. Sigurrós says:

    Rosalega eru myndirnar þínar flottar! 🙂 Stórglæsilegar!

Skildu eftir svar