Í sjöunda himni – meira um tækni.

Það hefur verið frí hjá börnunum í skólanum í gær og í dag vegna foreldraviðtala og starfsdags kennara svo ömmubörnin eru búin að vera hér alveg þessa daga. Ég hef því ekki haft tækifæri til þess að skoða nánar nýjasta tækniundrið mitt.

Ég missti sko algjörlega andlitið þegar ég kom til Hauks á laugardaginn og opnaði gjöfina frá honum. Ný Pfaff saumavél blasti við mér þegar ég hafði opnað stóra pakkann minn svo nú er mér ekki til setunnar boðið að taka til hendinni.  
Ég er hinsvegar bara búin að horfa á gripinn og hef ekki þorað einu sinni að setja hana í samband fyrr en ég væri ein og gæti einbeitt mér að því að gera nú allt rétt. 

Í rólegheitunum í kvöld tók ég mig svo til og setti kennsludiskinn í tölvuna hjá mér og skoðaði vel allt sem þar var að finna og áræddi síðan að kveikja á gripnum og prufa.  Hvílíkir galdrar.  Það svoleiðis spretta fram  hver útsaumsmynstrin af öðrum og fyrirhöfnin er engin. Það liggur við að ég geti farið og fengið mér kaffi á meðan hún saumar.  Aldrei datt mér i hug að ég ætti eftir að eignast slíkan grip. Mín gamla sem ég keypti mér 16 ára gömul  var orðin svo þreytt og döpur að ég vissi aldrei hvort hún kæmist á leiðarenda.  Hún þjónaði mér samt vel á meðan hún var upp á sitt besta því árum saman saumaði ég öll mín föt á hana. En það er nú liðin tíð og hef ég varla getað notað hana í bútasauminn því hún hefur sjálfstæðan vilja hvað viðkemur sporlengd á því sem hefur átt að sauma, sérstaklega þegar þykkt efni hefur átt að setja saman þá hjakkar hún bara í sama farinu að mestu svo ég hef orðið að toga efnið áfram.
Í vor neitaði hún alveg að hreyfa sig og þá talaði ég um það við Hauk að nú yrði ég að reyna að fá mér aðra vél. Þá tók Haukur hana í gegn, hreinsaði og smurði svo hún fór af stað aftur. Hann sagðist hinsvegar hafa farið beint og keypt þessa vél og lét þær í búðinni geyma hana svo konan kæmist ekki að neinu.

Nú er ég fegin að ég geymdi fínu tuskurnar sem ég keypti í Minni Mástungu. það verður ekki lakara núna að smella þeim saman. Ég hlakka svo sannarlega til þess að spretta úr spori á nýja gripnum. 

Ég segi það alveg satt að aldrei í lífinu hef ég eignast jafnmikið af nýjum, spennandi heimilistækjum og undanfarið. Nú bara vona ég að almættið úthuti mér nógu miklum og góðum kvóta svo ég geti nú nýtt þetta vel og lengi. Tekið myndir, sinnt tölvusamskiptunum, saumað og talað í síma. Gaman, gaman!   Ekki furða að ég sé í sjöunda himni.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Í sjöunda himni – meira um tækni.

  1. Þórunn says:

    Lífið er dásamlegt
    Innilega til hamingju með þessar góðu gjafir sem þú hefur fengið, það hlýtur að vera stórkostlegt að fá svona fullkomna saumavél, draum allra handlaginna húsmæðra. Njóttu vel og lengi.

  2. afi says:

    Vel að þessu komin.
    Þarna sérðu, flas er ei til fagnaðar. Gott fólk fær góðar gjafir. Gangi þér veð með saumaskapinn.

Skildu eftir svar