Framhjáhald?

Mér hálf brá í morgun þegar ég uppgötgvaði að ég var búin að kveikja á saumavélinni og búin að sauma í nokkra stund þegar ég áttaði mig á því að ég var ekki búin að kveikja á tölvunni.

Að kveikja á tölvunni er eitt af fyrstu morgunverkunum, strax á eftir því að  búa um rúmið, klæða sig  og setja á sig andlit.  Nýja saumavélin var sem sé tekin framyfir,  því nú voru fínu tuskurnar mínar komnar í litla ferninga sem biðu þess að fá að fara einn rúnt í nýja Pfaffinum.

Fyrirsögnin hjá mér er ekki slík af því að ég þekki vel til svona mála. Það er hinsvegar þessi tilfinning þegar maður tekur eitt fram yfir annað. Þið kannist kannski við líðanina ef maður ætlar allt í einu að fara að skipta um tannlækni eða fara til annarrar hárgreiðslukonu. Þá er tilfinningin sú að maður sé að halda framhjá þeim sem maður er vanur að fara til, önnur er nú meiningin í fyrirsögninni ekki en kannski fæ ég einhvern til að lesa pistilinn út á fyrirsögnina, ha.ha.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Framhjáhald?

  1. Linda says:

    Framhjáhald
    Þú náðir athygli minni..
    Ekki það að ég sé áhugamanneskja um framhjáhöld..
    Ég á það nú samt til að velta mér uppúr þannig leiðindamálum og alltaf með sömu spurningunni: Af Hverju??

    Niðurstaða mín, í stuttu útgáfunni, er sú, að vöntun er á ást (ánægju) til hins aðilans.. hvort sem um er að ræða „alvöru“ framhjáhald, hárgreiðslukonu framhjáhald eða nýja uppáhaldsskó..

    En það þarf nú samt ekki eggjandi fyrirsögn til að lesa pistlana þína.. þú skrifar vel og skemmtilega og ég hef gaman af að lesa og hef haft í þónokkurn tíma..

  2. afi says:

    Þar kom að því. Vonandi verður þú ekki svo heltekin af viðhaldinu að þú hættir alveg að sinna okkur hinum. Það yrði nú meira árans óréttlætið.
    „Það var einu sinni kerling og hún hét …“

  3. Þórunn says:

    Leikur að orðum
    Það er smá prakkari í þér Ragna, óneitanlega vakti fyrirsögnin þín athygli, sérstaklega vegna þess að þú ert ekki þekkt fyrir söguburð. En svo sá ég auðvitað hvað þú áttir við þegar frásögnin af saumavélinni kom. Ég skil vel að þú hafir verið spennt að byrja að nota gripinn, ekki síst af því þú varst búin að kaupa þér efni og beiðst eftir rétta tækifærinu að byrja. En ég tek undir með Afa, þú mátt ekki svíkja okkur um góðu frásagnirnar þínar af lífinu í Sóltúninu. 🙂

  4. Ragna says:

    Góðir vinir.
    Ég við bara segja að mikið rosalega á ég góða netvini að þeir skuli nenna að lesa þetta bull mitt. Eitt skuluð þið vita og það er hvað ég met ykkur afskaplega mikils fyrir trygglyndið að heimsækja síðuna mína svo til á hverjum degi. Líka þegar fyrirsögnin er ekkert spennandi.

Skildu eftir svar