Jólaljósin í Árborg.

Ætli maður verði ekki bara að fara að sætta sig við þetta snemmbúna jólaútlit sem komið er í allar búðir og bæi. Það er svo leiðinlegt að vera sínöldrandi gamalmenni sem hótar að fara ekki inn í þær búðir sem halda að jólin komi um leið og haustið og eru komnar með jólaskrautið um miðjan nóvember. Ég hef því ákveðið að gera hjá mér hugarfarsbreytingu og bíta á jaxlinn og láta mig hafa þetta eins og hinir gera.

Því til sönnunar þá fór ég ásamt systur minni og mági í gær þegar kveikt var á jólaljósunum á Selfossi og var ferðinni heitið í Húsasmiðjuna/Blómaval.   Hver veit nema það hafi eitthvað togað í að í auglýsingunni sem borin var í hvert hús var auglýstur kórsöngur, súkkulaði og vínsmökkun. Það er ljótt að mæta ekki þegar manni er boðið til veislufagnaðar. 

Við hittum marga nágranna okkar hérna úr götunni og fleiri Selfossbúa og það var varla hægt að þverfóta fyrir fólki sem komið var í sömu erindagjörðum, nefnilega að næra andann og fá að smakka eitthvað af góðgæti.
Við komum alveg í þann mund að Jórukórinn var að taka lagið og síðan fékk maður sér að smakka osta og súkkulaði frá Siríus. Ég tel þetta fyrst en svo var verið að gefa bæði hvítvín og rauðvín, hvort tveggja Chile vín. Já þeir eru flott á því hér í Árborg þegar þeir vilja svo við hafa.
Við vorum orðnar svo hressar eftir þetta allt að við ákváðum að fara í Vogue og kíkja á bútasaumsefnin sem voru á afsláttarverði í tilefni dagsins. Jón mágur minn valdi hinsvegar þann kostinn að fara heim og láta okkur systurnar um að tuskast.

Ég var mjög ánægð með kvöldið og bara sátt við fyrsta dag hugarfarsbreytingarinnar. Það hefði ekkert verið gaman að sitja í fýlu heima og skammast yfir því við sjálfa mig hvað jólatilstandið byrjaði snemma. Miklu skemmtilegra að taka bara þátt og láta sig hafa það að nú eru nýir tímar – ekki breytir maður því þó gamall sé.

Ég vona bara að ég muni það næsta ár að ég var búin að ákveða þessa hugarfarsbreytingu varðandi jólin.   Ég óska ykkur alls góðs í jólaundirbúningnum.

Góða helgi.
Ég tek mér bloggfrí líklega þangað til á þriðjudag, meira  um það síðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Jólaljósin í Árborg.

  1. afi says:

    Við verðum að vera umburðarlind gagnvart verslunareigendum þótt þeir þjófstarti aðeins. En þegar sumar útvarpsstöðvar eru farnar að spila jólalögin núna finnst afa skörin vera farin að færast upp á bekkinn. Eða bara fulllangt gengið.

  2. Linda says:

    Verð að vera sammála afa um að of snemmt er að byrja að spila jólalögin um miðjan nóvember..

    Ég er í sjokki hérna í útlandinu.. nágrannar mínir hafa sett jólaseríur á húsin sín og ekkert bara smá jólaseríur.. það er varla að maður sjái í húsið fyrir ljósum.. Og hin ýmsu upplýstu dýr í garðinum hjá þeim..
    Ég á ekki til orð.. Það er rétt rúmlega miður nóvember..

    Jahérnahér..

  3. Þórunn says:

    Mikið er alltaf upplífgandi að líta til þín Ragna mín, þú kannt að gera gott úr öllu og horfa á björtu hliðarnar á hverju máli. Eða eins og segir í máltækinu, „ef þú getur ekki unnið þá, skaltu slást í hópinn með þeim“, eða eitthvað álíka.

  4. Svanfríður says:

    Komdu sæl. Ég les pistlana hjá afa og Lindu og rakst því á þína pistla sem ég hef mjög gaman af að lesa. Ég er þér sammála með jólaljósin og jólalögin en hér í USA,eins og hjá Lindu, þá fer allt snemma af stað. Mér þykir þetta allt of snemmt en því miður eru jólin orðin hátíð kreditkortanna þó svo ég vilji meina að þau séu hátíð ljóss og friðar. Góðar stundir, Svanfríður

Skildu eftir svar