Svo sem ekkert markvert.

Það hefur nú lítið gerst hér síðustu daga nema fastir liðir. Ég kemst einhvernveginn ekki alveg í gang með að baka fyrir jólin. Ég tók mig þó til einn daginn og bakaði tvær sortir af smákökum og eitthvað smávegis svona til að hafa með kaffinu þessa dagana. Sjúklingurinn minn,, þessi á öðrum fætinum,  er af gamla skólanum og fær sér alltaf miðdagskaffi upp á gamla mátann með kaffibrauði og alles.  Ég tek það samt fram að hann gerir ekki kröfu um að hér séu hlaðin kökuborð alla daga. Það er bara alltaf gaman að gera eitthvað fyrir þá sem kunna að meta það sem fyrir þá er gert.  Hver er nefnilega sinn gæfu smiður og hann er búinn að gera svo mikið fyrir mig um dagana að nú er komið að mér að endurgjalda smá. Sjálf er ég að reyna að draga úr sætabrauðinu. Hef tekið þátt í því að borða slíkt þegar hann er í vaktafríunum en þess á milli fer ég í hrökkbrauðið nema gestir komi í kaffi. Nú spái ég í það hvernig útlitið á þeirri gömlu verður ef hún raðar í sig kökum á hverjum degi í – ég segi og skrifa – í þrjá mánuði. Best að hugsa ekki um það í bili.

Í dag fór ég á tónleika hjá Karlottu og Oddi Vilberg. Þetta voru fyrstu nemendatónleikarnir en þau byrjuðu að læra á fiðlu í haust.  Ég læt að gamni fylgja tvær myndir.

Síðdegið fór í að tína fram aðventuljósin og þvo utan gluggana. Ég var sem betur fer búin að taka gluggana inni um daginn. Þetta smá kemur.

Hér er Oddur með kennaranum sínum. Prakkarasvipurinn á stubbnum leynir sér ekki. Hvað ætli hann sé að hugsa? Alla vega eitthvað skemmtilegt og þetta tókst ágætlega.

Oddur Vilberg spilar með kennaranum sínum á fyrstu tónleikunum.

Karlotta sýnir meiri alvöru og spilaði ljómandi vel.

Karlotta á fyrstu nemendatónleikunum sínum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Svo sem ekkert markvert.

  1. afi says:

    Hrökkbrauð og sætabrauð. Þetta er allt gott hvað með öðru.

  2. Þórunn says:

    Tónleikar
    Ó það er svo gaman að fara á svona tónleika og sjá og heyra hvað börnin eru að gera. Já þau taka þessu af mismikilli alvöru en öll gera þau sitt besta. Mikið ertu dugleg að vera farin að baka, ég er ekki byrjuð enda kannski eins gott því við erum bara tvö um að láta kökurnar ekki skemmast.

  3. Ragna says:

    Það gamla góða.
    Þakka þér Vilborg mín fyrir að skrifa í gestabókina við færsluna um minningarnar úr litla húsinu. Já það er gott að eiga þessar minningar til að orna sér við.
    Nú styttist í frænkuhittinginn og þá getum við sko rifjað upp ýmislegt.

  4. Ragna M says:

    Mikið var gaman að sjá börnin með fiðlurnar. Ég hefði svo gjarnan viljað vera viðstödd og hlusta og kíkja á litla grallaraspóann. En ekki þýðir að tala um það vegna fjarlægðarinnar.
    Byrjaði aðeins að baka í dag en get tekið undir þínar vangaveltur um
    baksturinn en maður verður aðeins að smakka þó ekki sé til annars en að
    ganga úr skugga um að þetta sé bjóðandi gestum eða þannig. Bið kærlega að heilsa öllum og óska Hauki góðs bata .Kær kveðja frá okkur í Huldugilinu. Ragna M

Skildu eftir svar