Fyrsti sunnudagur í aðventu.

Þá er kominn að kvöldi lfyrsti sunnudagur í aðventu. Ég byrjaði daginn á því að fara með Guðbjörgu, Magnúsi, Karlottu og Oddi Vilberg í messu klukkan 11 í Selfosskirkju. Kórinn, sem Karlotta er í söng í upphafi messunnar og síðan kirkjukórinn og eldri barna kórinn.  Að venju sagði séra Gunnar nokkra brandara. Það er ekki hægt að segja að það sé leiðinlegt að fara í messur hér, ef frá er talin altarisganga í hvert einasta sinn sem messað er. Ég get aldrei vanist þessum endalausu altarisgöngum enda vön öðru í gömlu sókninni minni, en þar var þetta haft meira spari.  Ég er kannski bara svona skrítin að hafa þessa skoðun.

Eftir messu fór ég heim að huga að sjúklingnum en þau komu svo á eftir mér með ný brauð úr bakaríinu og við fengum okkur öll snarl hérna saman um hádegið.  Þegar þau voru farin þá dreif ég í því að setja rauð ljós á Cyprustrén sem eru hérna framan við húsið og setti líka seríur í stofugluggana. Nú á ég bara eftir að príla með ljósin upp í þakkantinn. Það  á ekki að vera neitt mál ég gerði þetta sjálf á Kambsveginum.  – Þ.e.a.s. þar til Haukur kom til sögunnar því eftir það átti ég Hauk í horni um hver jól. Núna hinsvegar er hann  bara úti í horni, innpakkaður í gifs og grisjur.

Svona er nú lífið hérna þessa dagana.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Fyrsti sunnudagur í aðventu.

  1. afi says:

    Langt að fara
    Í Guðanna bænum farðu varlega í þakpríli. Betri er heil hönd en ljós á þaki. Verst er hvað það er langt fyrir afa að koma til aðstoðar. Er á sama máli hvað varðar altarisgöngurnar.

  2. Þórunn says:

    AÐVENTA
    Mikið er notalegt að byrja aðventuna á því að fara í messu, ég geri ekki mikið af því hérna í Portugal, kirkjurnar óupphitaðar þannig að ef það er +10° úti þá er sama hitastig inni. Þar er líka altarisganga í hverri messu, en þó með öðru sniði en á Íslandi, almenningur fær aðeins brauðið, sem kirkjuþjónar fara með út í kirkjuna en presturinn og þjónar hans fá vín með. Svona eru siðirnir misjafnir. En við enduðum á kaffihúsi með góða tertu og kaffibolla.
    Elsku farðu varlega við prílið, mundu Gurrý, hún datt á jafnsléttu.

  3. Linda says:

    Get ekki sagt að ég sé sú kirkjuræknasta í heimi.. enda er það eitt af því leiðinlegasta sem ég geri.. fer ekki nema af algerri nauðsyn.. skírn-ferming o.þ.h. ..

    Ég fór nú síðast fyrir 2 árum síðan í kirkju í Oklahoma, þegar 11 ára frændi eiginmannsins var skírður (hann er Baptistatrúar), þar sem honum var dýft ofan í vígt vatn til að játast trúnni..
    Það var sú allra einkennilegasta messa sem ég hef farið í..
    Presturinn var bara í venjulegum jakkafötum og allir í kórnum líka..
    Kirkjuþjónarnir láta bakka með oblátu ganga á milli bekkja og fólk tekur eina og stingur upp í sig.. næst er það rauðvínið í pínulitlum plastkaleikum á bakka sem er látið ganga á milli bekkja.. þegar því er lokið, fer presturinn með nokkur vel valin orð og þá er annar tómur bakki látinn ganga á milli bekkjanna, þar sem fólk getur sett pening í þá.. og er eiginlega ætlast til þess af þeim sem þáðu oblátuna og rauðvínið..
    Ég var svo yfir mig hissa á þessum sníkjum..

    Svona er trúin misjöfn..

Skildu eftir svar