Á ég eða á ég ekki? Þori ég eða þori ég ekki?

Hvað ætli ég sé nú búin að koma mér í???  
Í vor fékk ég senda beiðni um að taka þátt í lyfjarannsókn vegna astma og heilmikið lesefni um þetta fylgdi með.  Í fyrstu var ég mjög spennt og las hverja blaðsíðuna af annarri um þessa rannsókn. Eftir því sem blaðsíðurnar urðu fleiri þá var ég sannfærðari um að ég hefði ekki kjark til að taka þátt í þessu. Þegar ég síðan sá í lok þessa mikla lesturs, að ef eitthvað mjög alvarlegt kæmi upp þá yrði maður að hringja eins og skot í 112 og láta fara með sig á sjúkrahús, varð ég sko fyrst hrædd fyrir alvöru og ákvað að þar sem ég væri staðsett hérna á Selfossi og oft alein í kotinu, þá ætlaði ég ekki að hætta lífi mínu í þetta. Lífið væri mér allt of dýrmætt til að taka svona áhættu og ég tilkynnti á þessum tímapunkti að ég hefði ekki kjark til þess að taka þátt. 

 Auðvitað skammaðist ég mín með sjálfri mér að taka þessa afstöðu því hvernig á að þróa ný lyf ef enginn vill taka þátt. Svo var það um daginn að aftur var hringt til mín vegna þessa sama verkefnis. Ég sagðist vera of mikil gunga til þess að taka þátt og hefði tilkynnt þeim það.  Þá sagði stúlkan að rannsóknin hefði verið í gangi síðan í vor og ekkert alvarlegt komið upp. Ég ákvað því að vera ekki með þennan aumingjaskap og gaf í þetta skipti jáyrði mitt. 
Mér var sagt að þegar það yrði búið að tala við sérfræðinginn sem ég hefði verið hjá og skýrslur um mig skoðaðar þá yrði ég látin vita hvort ég væri fullboðlegur kandidat. 

Í kvöld – í miðjum Survivor þætti – var svo hringt og mér tilkynnt að ég yrði með og ætti að mæta í fyrstu rannsókn í byrjun desember. Ég þarf sem sé að fara í nákvæmar rannsóknir til Reykjavíkur í sex skipti og taka inn eitthvað sem ég veit ekki hvað er eða hvað muni gera mér.

Ég segi því bara "Í hvað er ég búin að koma mér" ? – og jólin framundan.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Á ég eða á ég ekki? Þori ég eða þori ég ekki?

  1. Svanfríður says:

    Ragna mín
    Þetta verður örugglega allt saman í lagi. Mér finnst þú dugleg og ósérhlýfin að taka þátt því þú átt smá þátt í að nýtt lyf komi á markaðinn. Hér í Cary er allt orðið mjög jólalegt, allt nema veðrið. Það var 11 stiga hiti í dag og úði-alveg eins og heima á Höfn. En veturkonungur bankar upp á næstu dögum og þá get ég kannski tekið þotuna út og upplifað snjóinn í gegnum son minn í fyrsta skipti. Ég hlakka til. hafðu það gott, Svanfríður

  2. afi says:

    Ekki spurning
    Það er ekki spurning, þú átt að taka þátt í þessu. Ef þessi sjúkdómur er eitthvað að plaga þig. Þú verður í góðum höndum og allt fyrir þig gert. Það er fylgst einstaklega með fólki sem tekur þátt í svona rannsókunm. Svo þarf ekkert að greiða fyrir lyfin sem kannski er aukaatriði í þessu sambandi. Gangi þér vel, þetta á eftir að koma þér að góðum notum. Það er stjanað við alla þá sem taka þátt í slíkum rannsónum.

  3. Linda says:

    Mér líst vel á þessa ákvörðun þína og það sem meira er, þá finnst mér þú svakalega kjörkuð..

    Gangi þér rosalega vel í þessum tilraunum..

  4. Þórunn says:

    SURVIVOR
    Alltaf er eitthvað óvænt að gerast, en þú hefur tekið ákvörðun svo nú er bara að halda áfram. Er ekki bara gott að fá svona góðar rannsóknir og er það ekki rétt sem Afi segir að það sé mjög vel hugsað um þá sem taka þátt í svona rannsóknum? Gangi þér vel, þú er örugglega SURVIVOR.

  5. Ragna says:

    Takk
    Þakka ykkur öllum fyrir færslurnar í dag og uppörvunina. Þetta verður alla vega spennandi. Þið látið bara einhvern athuga hvort ekki sé allt í lagi með mig ef ég hætti að færa dagbókina mina 🙂

Skildu eftir svar