Í erli dagsins.

Krakkarnir voru lítið hjá ömmu í dag því að þau fóru bæði í klippingu eftir hádegið og mamma þeirra náði að fara með þeim í það. Við Haukur fórum því í smá jólarúnt hérna á Selfossi. Byrjuðum í Byko þar sem við komumst að þeirri gleðilegu staðreynd að jólaseríur og þess háttar var komið á 50% afslátt. Frábært, þá gat ég keypt seríuna sem mig er búið að langa svo í til þess að hafa hérna á hliðinu á pallinum. Ekki finnst mér ólíklegt að það eigi eftir að koma mynd af því.

Mig langar líka svo til þess að setja grenikrans ofaná grindurnar á pallinum og ljós í það. Við erum hinsvegar ekki alveg sammálal um það því Haukur hefur áhyggjur af því að þá þyrftum við að taka niður rennurnar sem við setjum fuglafóðrið í. Þetta er nú ekki nema hálfur mánuður sem jólin standa yfir og ef það kemur mikið frost þá stráum við bara korninu á jörðina eins og maður gerði áður en þessi hugmynd að rennunum kom til. Maður verður reyndar að fylgjast mun betur með og öskra enn oftar á kattarófétin sem sitja um fuglana hérna en þá bara gerum við það. Ég á nú von á því að ég vinni þessa lotu og þá sýni ég ykkur árangurinn.

Þegar við höfðum rölt um Byko þá fórum við yfir götuna og í Europris. Það er oft gaman að rölta um Europris en nú varð ég fyrir vonbrygðum og fór alveg tómhent út. Ég hélt að ég fengi þar pakkagjöf til þess að hafa með mér í vatnsleikfimina í dag en það brást sem sé alveg og ég bætti því við að fara í Nóatún þar sem ég fékk það sem ég var ánægð með.

Nú var kominn tími á að sækja Karlottu á hárgreiðslustofuna og koma henni í kirkjuna á kóræfingu á meðan mamman biði eftir að herrann yrði klipptur.
það stendur mikið til hjá Karlottu minni því á laugardag á barnakór kirkjunnar að syngja með Sinfoníuhljómsveitinni í Háskólabíói ásamt barnakór frá Flúðum en þangað var farið til æfinga í gær. Á morgun er svo aftur farið með allan hópinn í rútu, en nú til Reykjavíkur til þess að æfa í Háskólabíói. Já það er nóg að gera hjá ömmustelpunni minni þessa dagana þó aldurinn sé ekki hár bara 8 ár. Vonandi gengur þetta nú allt vel en mér finnst óskaplega mikið lagt á þessa litlu krakka að hafa svona þrotlausar æfingar. Flestir þessara krakka eru líka í fimleikum og öðru tónlistarnámi sem líka krefst æfinga og aukaæfinga vegna ýmissa sýninga þessa dagana.

Stubburinn kom svo við til að sýna ömmu hvað hann væri flottur eftir meðhöndlunina á hárgreiðslustofunni. Þegar amma ætlaði að fara að strjúka eitthvað yfir hárið á honum þá var minn fljótur að víkja sér undan og sagði að amma mætti ekki skemma hárgreiðsluna því hún ætti að vera svona. Þetta væri svo flott.

Nú var hinsvegar komið að því að amma færi í jólatímann í vatnsleikfiminni. það var að venju mjög notalegt og skemmtilegt. Það var búið að slökkva öll ljós nema rauð og græn ljós sem voru ofaní lauginni og vörpuðu þau ævintýralegum bjarma á vatnsborðið svo var auðvitað jólaskreytta, fljótandi veisluborðið með kertum, jólaöli og konfekti sem við röðuðum okkur í kringum í lauginni.

Svo var ölið drukkið, nammið borðað og sungin lólalög og allir fengu jólapakka í pakkaleiknum.

Það var því sæl og ánægð amma sem kom heim úr sundinu í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Í erli dagsins.

  1. Svanfríður says:

    Ég sé að ömmubarnið þitt, Karlotta er í barnakór. Er Magnea Gunnarsdóttir stjórnandi þeirra? Svar óskast, takk:) Góða nótt, Svanfríður

  2. Ragna says:

    Svar til Svanfríðar.
    Sá sem stjórnar barnakór Selfosskirkju heitir Glúmur Gylfason, en hann hefur verið organisti við Selfosskirkju í áratugi.

  3. Svanfríður says:

    takk fyrir svarið. Nei ég spurði því þú minntist á barnakórinn frá Flúðum og ég hélt að Magnea væri stjórnandi þar.

  4. Linda says:

    Ja, ég skal segj´ ykkur það.. Vatnsleikfimi með veisluborði.. Allt er nú til..
    Er nokkuð laust pláss fyrir eldgamlan ungling eins og mig??
    😉

  5. Þórunn says:

    Jólasund
    Þetta er örugglega mjög notalegt og huggulegt að hafa hlaðborð í sundleikfimi, að ég tali ekki um fallegu lýsinguna.

Skildu eftir svar