Viðbótarseríurnar settar upp.

Dagurinn í dag var tekinn smenna því Karlotta kom hingað fyrir klukkan átta svo að amma gæti komið henni í rútuna út við kirkju til þess að fara með kórnum í enn eina æfingaferð.

Mikið rosalega var kalt í morgun. Rútan var ekkikomin þegar við mættum og þegar hún kom, þá var ömmubíll orðinn alveg troðinn af kórstúlkum því það var alltaf verið að banka í rúðuna og spyrja hvort einhver mætti bíða. Fólk var að flýta sér til vinnu og mátti ekki vera að því að bíða og ekki máttu stúlkurnar kvefast úti í kuldanum þegar svona mikið stóð til.
Já, það  kemur sér stundum vel að vera amman sem hefur tíma.  korinn.jpg

Allt gekk þetta nú upp og rútan lagði af stað með kórinn til Reykjavíkur en amma fór heim og  fékk sér heitan kaffisopa.  Eftir kaffið efldist sú gamla mjög og fór að skoða í pokann sem hún kom með heim úr Byko í gær en úr honum dró hún upp grenilengjur og ljósanet og nú skyldi sett á hliðið á pallinum.

Haukur spurði hvort það væri ekki allt of kalt til að fara að eiga við þetta núna. Sú gamla sagði að það væri betra núna en í snjókomunni sem væri spáð á morgun og með það snaraðist hún út.  Haukur kom svo auðvitað líka og saman settum við á hliðið sem nú skartar hinum fegurstu ljósum.

jlahlii.jpg

(Ég skil ekki af hverju mér tókst ekki að taka myndina betur en þetta)

Eftir hádegið fórum við Haukur svo  í Pólsku jólakúlubúðina á Eyrabakka og síðan bauð hann mér í kaffi og heita eplaköku á Kaffi Krús, svo fórum við í Nóatún þar sem verið var að kynna belgískt konfekt og Hauki fannst það svo gott að hann keypti strax kílókassa svona fyrir okkur til að hafa um jólin. Hann er nú alveg dæmalaus nautnaseggur hann Haukur en ég nýt góðs af, þ.e.a.s. þangað til ég kemst ekki í fötin min lengur 🙁 .

Læt þetta duga í dag.
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Viðbótarseríurnar settar upp.

  1. Þórunn says:

    Jóla-amma
    Ragna mín, þú ert sannkölluð jóla-amma, gott að eiga svona ömmu þegar kalt er úti. Svo er það skreytingin á húsinu og hliðinu hjá ykkur, þetta finnst mér sko fallegt. Ég veit alveg af hverju myndin varð svona. Þegar það er dimmt úti þá ákveður vélin sjálf að hún þurfi að lengja opnunartíma ljósopsins og þá verður myndin hreyfð. Nú kæmi sér vel fyrir þig að eiga þrífót við svona myndatöku, eða stilla vélinni upp á td. vegg, bílþak eða eitthvað slíkt. Myndirnar sem ég tók af ljósaskrautinu í Austurkoti eru teknar með aðstoð þrífóts.

  2. Svanfríður says:

    Sæl og blessuð vinkona. Nei, Svava Bjarna býr í Danmörku en hjartasalt hér í USA er Cream of Tartar. Ég hef notað það og allt í lagi. Vonandi hjálpar þetta.

Skildu eftir svar