Jólin í Englandi.

Á jólum 1975 bjuggum við hjónin í litlum bæ í suðvestur Englandi ásamt eldri dótturinni Guðbjörgu.

Þegar fór að nálgast jólin fór ég að kíkja eftir hamborgarhrygg, en slíkt hafði ég ekki séð í stórmörkuðunum sem ég verslaði við. Ensk vinkona mín sagði mér að tala við kjötkaupmennina. Ég fór til fleiri en eins kjötkaupmanns en enginn vissi hvað ég var að tala um. Þó áttuðu þeir sig á því að ég vildi reykt svínakjöt og mér var bent á beikon, ég gæti fengið það í heilu stykki. Ekki vildi íslendingurinn það og reyndi áfram. Ég endaði svo í stærri bæ nálægt okkur, þar sem ég fann kjötkaupmann, sem vildi allt fyrir mig gera. Hann hafði heyrt um þessa verkun á svínakjöti en sagðist ekki vera með það því það væri ekki enskur siður að borða slíkt, þetta væri örugglega þýskt eða skandinavískt. Hann var heldur ekki ekki viss um hvað ég meinti með því að ætla að fá bak af svíni. Ég teiknaði þá á bakið á mér til að sýna að ég vildi hrygginn. Mér var sama að hve miklu fífli ég gerði mig í búðinni bara ef ég fengi rétta jólamatinn. Hann brosti góðlátlega að tilburðum mínum og var svo elskulegur að segja mér að koma aftur eftir nokkra daga því hann ætlaði að kynna sér málið betur og reyna eins og hann gæti að fá þetta því auðvitað yrði ég að fá réttan jólamat. Þessi elskulegi maður kom svo brosandi til mín og rétti mér hamborgarhrygg um leið og hann sá mig koma að kjötborðinu nokkrum dögum seinna. Það fór því svo að þessi englendingur átti sinn stóra þátt í því að við fengum eftir allt okkar hamborgarhrygg á jólunum. Ekki vildi hann gera mikið úr fyrirhöfninni en sagðist hafa pantað þetta frá London. Mig langaði mest til þess að stökkva um hálsinn á honum og gefa honum knús en vissi ekki alveg hvernig hann myndi taka því og þakkaði honum því bara með fallegum orðum. Stundum verður það að duga.

Þegar átti svo að kaupa annað sem manni fannst ómissandi eins og ferskt raukðkál til að steikja, þá var það ekki á boðstólum hjá grænmetissalanum á þessum árstíma. Ekki man ég nú hvað við höfðum sem meðlæti, alla vega vorum við með brúnaðar kartöflur það man ég. Í Englandi borða allir Kalkún á jólunum svo að allt miðaðist við það hjá kaupmönnunum að eiga það sem þurfti til slíkrar matargerðar.

Á Þorláksmessu – sem enginn þekkti til í Englandi- óskaði Oddur öllum á skrifstofunni hjá Coopers & Lybrand þar sem hann var við störf, gleðilegra jóla. Þá var hann spurður af hverju hann óskaði gleðilegra jóla í dag, hvort hann kæmi ekki á morgun því þá væri venjulegur vinnudagur, fyrir utan það að eftir vinnu klukkan fimm færu allir saman á pöbbinn og drykkju nokkra bjóra. Þeir urðu undrandi þegar hann sagðist ætla að vera heima daginn eftir því þá byrjuðu jólin og við myndum borða saman góðan mat og opna pakkana. Þessir íhaldssömu bretar ætluðu ekki að trúa því að við ætluðum ekki að djamma á aðfangadagskvöld og opna pakkana á jóladag, en minn sat við sinn keip og var heima. Aðfangadagur úti er sem sé eins og Þorláksmessan hjá okkur, alla vega eins og hún er að verða í dag, að fólk fari í bæinn og á krárnar.

Við keyptum okkur lítið jólatré, seríu og nokkrar kúlur og elduðum svo okkar jólamat á aðfangadaginn og settumst svo þrjú að jólaborðinu og kveiktum á kertum klukkan sex um kvöldið. Það var voða skrítið að sitja bara þrjú til borðs, engar ömmur, afar eða aðrir sem við vorum vön að vera með á aðfangadagskvöldi og ekki gátum við hlustað á jólin hringd inn með kirkjuklukkunum og hlustað á jólamessuna í útvarpinu. Við vorum ekki með plötuspilara svo við gátum ekki spilað nein jólalög. Í sjónvarpinu var bara venjuleg dagskrá og ekkert hátíðlegt þar að finna svo imbinn var hafður alveg svartur þetta kvöld. Við töluðum bara um fólkið okkar heima og vorum með þeim í huganum.

Eftir matinn og fráganginn þá settumst við þrjú inn í stofu og sungum saman jólasálmana, nokkuð sem við höfðum aldrei gert áður. Síðan tókum við upp pakkana og lásum allar dásamlegu jólakveðjurnar að heiman. Svo hringdu foreldrar beggja að til að óska okkur gleðilegra jóla.

Svo var svo gott að skríða upp í rúm um kvöldið í nýjum náttfötum með jólabækur að heiman. það var ekki hægt að óska sér betra aðfangadagskvölds en við áttum þarna.

Ég segi nú alveg eins og er, að í minningunni finnst mér þessi látlausu jól okkar þarna á erlendri grundu alltaf svo einstök og við vorum svo mikið í nánd við sjálf jólin og við hvert annað án allrar streitu og prjáls. Það liggur við að ég fái tár í augun þegar ég rifja þetta upp.

Í dag þegar maður er að byrja að stressast fyrir jólin og finnst að aldrei sé búið að gera nóg af þessu eða hinu þá er hollt að fara aftur í tímann og rifja upp hvað jólin sem voru þau allra látlausustu voru yndisleg, einmitt í sinni einföldustu mynd.

Ég óska ykkur góðrar helgar. Reynum að láta stressið ekki ná tökum á okkur og hugsum til þeirra sem hafa verið með okkur en eru það ekki lengur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Jólin í Englandi.

  1. Svanfríður says:

    Elsku Ragna. Á þessum tíma árs er ég alltaf voða meyr svo þegar ég las um ykkur syngja jólasálmana þá fór ég bara „smá“ að skæla. takk fyrir yndislegan pistil. Svanfríður

  2. Þórunn says:

    Jólahald
    Þetta er hugljúf saga um litla fjölskyldu fjarri vinum og ættingjum. En viljinn og rétta hugarfarið er allt sem þarf, það er hægt að ná upp réttu stemmingunni, þó það vanti marga hluti sem manni finnst venjulega ómissandi um jólin.
    Ragna mín, takk fyrir að deila þessu með okkur.

  3. Linda says:

    Þetta er rosalega góð frásögn og alveg ekta jólasaga..
    Takk fyrir mig..

  4. afi says:

    Jólin
    Sinn er siður í landi hverju. Mamman neitaði að gefast upp. Litla fjölskyldan skyldi fá sinn jólamat, að sínum hætti. .. Og það tókst, þó ekki fyrirhafnarlaust. Þótt eitthvað hafi vantað var hátíðarhaldið í réttum anda. Takk fyrir fallega jólasögu.

Skildu eftir svar