Frænkuhittingur og fleira.

Það var frænkuboð á sunnudaginn hjá henni Maríu systurdóttur minni. Við hittumst nú það seint að þesu sinni að við slepptum föndrinu en töluðum bara þeim mun meira í staðinn 🙂 Reyndar voru þær með hekl og prjóna Edda og Guðbjörg en það var ósköp notalegt að sitja bara og mala og láta sér líða vel í góðum félagsskap.

Hér eru þær mæðgur María gestgjafinn og mamman Edda.

img_0626.jpg

Í gær var svo danssýningin í Vallaskóla. Mér finnst alltaf svo gaman að fara og sjá hvað krakkarnir hafa verið að læra í dansi yfir veturinn. Í fyrra dönsuðu þau gömlu dansana af krafti en nú voru þetta eingöngu hópdansar svona í stíl við línudansa.

Hver árgangur dansaði sinn dans og hin sátu á meðan og síðan dönsuðu öll börnin í skólanum saman og það var alveg einstaklega skemmtilegt að sjá það þegar nærri 1000 börn dönsuðu í einu í íþróttahúsinu. Þetta er mynd af Karlottu hópi en hún er lengst til hægri í fremstu röðinni. Því miður varð vélin batteríslaus þegar kom að lokaatriðinu en það hefði verið gaman að eiga mynd af því.

danssyningin.jpg

 Í gær var líka síðasti dagurinn sem börnin voru í pössun hjá ömmu, allavega í bili því nú er komið jólafrí í skólanum.  Í tilefni af því þá bakaði afi pönnukökur og það var hitað súkkulaði með rjóma og borðaðar smákökur í kaffitímanum í gær, Guðbjörg og Magnús Már fengu auðvitað að vera með.  Þetta voru eiginlega svona litlu jólin okkar og afskaplega notalegt og gott að gera sér svona dagamun á aðventunni. Það sem ég á eftir að gera núna er bara að kaupa í matinn og þrífa og svo á ég eftir að fara í bæinn. Fer þá til Sigurrósar og Jóa, tengdó og í kirkjugarðana og auðvitað í síðustu heimsóknina í þágu vísindanna, ekki má geyma það framyfir jólin, allt svo nákvæmt á þeim stað.

Læt þetta duga í bili, þarf að fara að ganga frá því sem á að fara með í bæinn.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Frænkuhittingur og fleira.

  1. Þórunn says:

    Meira fjör..
    Já það er bæði gaman að sjá aðra dansa og stíga sporin sjálfur. Ég skal trúa að þetta hafi verið skemmtilegt. Ekki spilltu svo pönnukökur með rjóma og kakó á eftir. Gangi þér vel með það sem ljúka þarf fyrir aðal-hátíðina. Góðar kveðjur frá Portúgal.

  2. afi says:

    Gleði
    Þarna hefur ríkt sannkölluð dansgleði. Fjör og gaman. Alltaf gaman að fylgjast með því sem börnin hafast að.

Skildu eftir svar