Þorði ekki að segja frá fyrr en nú.

Við Selfossfólkið fórum í borgarferð í dag. Það er nú varla að ég þori að segja ykkur tilefnið, eins og ég er búin að predika um að passa sig á lifandi kertaljósum og öllu því. En ég vil vera heiðarleg við dagbókina mína og verð þessvegna að skrifa í hana bæði það sem kemur sér vel og líka það sem kemur sér illa. Þið megið samt ekki skamma mig mikið eftir lesturinn því ég hef skammast mín nógu mikið án þess að fá nokkra hjálp til þess.  Hefst nú frásögnin:

Á jóladagsmorguninn byrjaði ég á því sama og alla jóladagana, að setja í samband seríuna á jólatrénu og ætlaði svo að kveikja á kertum í nokkrum stjökum sem ég hef haft kertaljós á meira og minna alla aðventuna, þar á meðal sprittkertunum í litlu koparstjökunum (með gatamynstri svona litlum stjörnum), sem voru á sitthvorum enda á arinhillunni. Eins og þið sjáið þá er það ekki mjög gáfulegt að hafa kerti svona á bómullarundirlagi,  en þetta vorum við nú búin að vera með í marga daga og allt í fínu lagi. Jæja áfram með söguna

– Ég mundaði gaskveikjarann sem hafði verið orðinn eitthvað svo slappur síðast þegar ég notaði hann og ætlaði að að kveikja á kertunum sem stóðu á öðrum endanum á arinhillunni. Nú kom hinsvegar löng eldtunga fram úr kveikjaranum og það er ekki að orðlengja það að gasloginn fór í gegnum eitt gatið og í bómullina sem stjakarnir stóðu á og arinhillan varð á sekúndubroti alelda.  Fyrsta hugsunin var að ná í eldvarnarteppið sem var bara rétt innan við þar sem arininn er staðsettur svo ég reyndi ekkert að gera annað.  Ég var í kjól sem ég vissi að ekki mætti koma eldur í því þá yrði ég sjálf alelda svo teppið var eina von mín. Ég lagði það svo framan á mig og yfir dótið á hillunni og vöðlaði öllu saman þangað til eldurinn var slökktur.

Meðan á þessu stóð hafði reykskynjarinn pípt án afláts og ég var hræddust um að nágrannar myndu kalla á slökkviliðið. Haukur hafði skroppið frá og vissi ekki hvað var að gerast fyrr en ég var búin að slökkva eldinn og finna stól og rífa niður reykskynjarann sem var að gera mig brjálaða því reykurinn var það mikill að skynjarinn hélt auðvitað áfram að pípa á hæsta.

Þetta hefði getað farið illa en það sem skemmdist var allt litla jóladótið  sem ég hef átt í mörg ár og fæst auðvitað hvergi og hillan ofan á arninum sviðnaði en jólahúsin skemmdust ekkert. Þau eru sjálfsagt úr efni sem ekki brennur.  Sjálf slapp ég algjörlega af því ég gerði ekkert fyrr en ég var komin með teppið í hendurnar.  Það var auðvitað rosaleg brunalykt í íbúðinni en við vorum að fara í jólaboð til Guðbjargar og Magnúsar Más svo við gátum opnað alla glugga og svo keypti Haukur fyrir jólin lofthreinsitæki sem líka eyðir lykt og við settum það á fullt  og þegar við komum heim um kvöldið var nánast enga lykt að finna.
Sumt er svo skrítið þegar maður hugsar um það, eins og til dæmis þá tilviljun að við vorum komin með þetta lofthreinsitæki.

Ég tilkynnti auðvitað tryggingarfélaginu mínu TM hvað hefði komið fyrir og hinn elskulegasti maður kom frá þeim í heimsókn í gær og skoðaði verksummerkin. Hann hældi mér fyrir að hafa brugðist rétt við, gaf mér nýtt eldvarnarteppi í stað hins sem skemmdist nokkuð og hringdi svo í morgun og sagði mér að fara og kaupa nýjan arinn því það borgaði sig ekki að kosta upp á viðgerð á hinum.

Þetta er nú ástæða þess að við fórum til Reykjavíkur í dag ásamt Guðbjörgu og Magnúsi Má. Nú bíður sem sé nýr arinn í kassa inni í bílskúr eftir því að verða settur saman og fá að leysa hinn laslega af hólmi.  Héðan í frá ætla ég bara að kveikja á þar tilgerðu geli inni í arninum en ekki arninum sjálfum.  Ég verð svo bara að lifa með því að verða strítt á þessu a.m.k. um hver jól ef ekki oftar.  

Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er erfitt að þurfa að segja frá þessu eftir að predika yfir öðrum að fara varlega.  En er ekki best að segja allan sannleikann strax – Jú það er alltaf best.

Ég sendi ykkur góðar kveðjur kæru vinir og dæmið mig nú ekki of hart.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Þorði ekki að segja frá fyrr en nú.

  1. Sigurrós says:

    Við skulum lofa að stríða þér ekki alltof mikið á þessu. Maður er bara feginn að ekki fór verr.

  2. Svanfríður says:

    Mér dettur nú bara ekki í hug að stríða þér..sem betur fer brástu rétt við og máttu klappa þér á bakið fyrir það. En mér dettur samt ein staka í hug: Það er að kvikna í, það er að kvikna í, það er að brenna……:)

  3. Þórunn says:

    Lán í óláni..
    Ég er sammála þér, það borgar sig að vera hreinskilin og þér hefur örugglega létt þegar þú varst búin að skrifa um óhappið. En þetta sýnir bara að það getur alltaf gerst eitthvað óvænt og það er svo erfitt að gera sér grein fyrir hvernig óhöppin verða. En þú átt hrós skilið fyrir að hugsa rökrétt og bregðast rétt við. Það á að vera til svona teppi á öllum heimilum, þau geta bjargað miklu og reykskynjari líka, það er auðséð að þú ert varkár og heimilið vel útbúið hvað þetta varðar. Þú þarft ekkert að skammast þín, þetta var ekki þér að kenna en mátt vera stolt af því hvernig þú brást við. En það er samt aldrei of varlega farið. Gangi ykkur vel með nýja arininn. Bestu kveðjur að sunnan.

  4. afi says:

    afa er hvorki stríðni né hlátur í hug. Þú ert frábær og brást hárrértt við á ögurstundu. Annars hefði getað farið illa. Að láta okkur vita er mjög hugulsamt af þér. Það verður vonandi til þess að við gætum okkar betur.

  5. Hulla says:

    Hummm
    Hummm, hvar skyldi karlmenni á heimilunu hafa verið. hehehehe
    En guði sé lof að ekki fór verr. Hafi þið það gott áfram……. og passa sig með eldinn..

  6. Eiki Danski says:

    Mig minnir nú að það hafi verið eldvarnarteppi í eldúsinu okkar á stokkseyri en þegar að það kviknaði í aðventukransinum hennar Hullu hérna um árið þá var mín fyrsta hugsun út með draslið og það gerði ég reif upp skreytinguna og hljóp út hefði nú líklegast verið skynsamlegra að sækja teppið en það er auðvelt að vera vitur eftir á.
    Gott að ekki fór verr hjá ykkur.

    Gleðilega hátíð kv Eiki

Skildu eftir svar