Við áramót.

Við áramót staldrar maður við og hugsar um það hvernig komandi ár muni verða – ekki það að auðvitað hefur maður lítið um það að segja sjálfur, en samt leiðir maður hugann að því. Alla vega er ég farin að hugsa um það hvernig kirsuberjatréð mitt kemur undan vetri og hvað það verður fallegt þegar það fer að blómstra og bera ávöxt og hvað það verður gaman að drekka kaffi úti á pallinum á sólardögum og horfa á rósirnar og hlusta á fuglana syngja. Það verður líka gaman, í viðbót við ömmubörnin mín tvö að fá það þriðja í vor til að knúsa.
Ég hef svo sannarlega á tilfinningunni að komandi ár verði mjög gott ár og ætla að trúa því.

Um áramót þá lítur maður líka til baka á árið sem er að kveðja okkur.  Efst í huga er þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem manni hafa verið gefnar og þakklæti fyrir fjölskyldu og vini sem hafa gert þessar stundir að góðum stundum.  Mér er ofarlega í huga brúðkaup Sigurrósar og Jóa sem var yndislegt og eftirminnilegt.  Það var líka skemmtileg ferðin til Spánar með Guðbjörgu, Magnúsi Má, barnabörnunum og foreldrum Magnúsar Más. Afmælið mitt í haust verður líka ein af minningarperlunum. Svo eru minningar um svo til daglega samveru með ömmubörnunum mínum í vetur mikill fjársjóður.

Það er svo margs að minnast að ég kem því ekki á blað svona í einni svipan. 
Þó vil ég setja hérna á blaðið hvað ég er þakklát öllum bloggvinunum mínum fyrir einstaklega skemmtileg samskipti og notaleg. Þar finnst mér ég líka hafa eignast fjársjóð. Eftirminnilegast er auðvitað þegar Þórunn og Palli í Portúgal komu hérna í heimsókn til okkar Hauks  og á sama tíma var Gurrý í Amman á Íslandi og litlu munaði að við gætum hittst allar.

Mér finnst bloggvinahópurinn sem ég er komin í vera alveg einstakur. Heimsókinirnar okkar hvert til annars eru svo gefandi og skemmtilegar að fyrsta verk á morgnanna er að kveikja á tölvunni og kíkja aðeins í heimsókn til ykkar kæru vinir.  Ég vona svo sannarlega að komandi ár verði okkur eins skemmtilegt og það sem nú kveður.

Ég ætla ekki að láta þetta verða lengra í bili en vil nota tækifærið og gefa ykkur öllum bloggknús um leið og ég óska ykkur gæfu og góðra stunda á árinu sem senn gengur í garð.

Megi andagift okkar bloggvina verða sem mest og færa okkur góð áframhaldandi samskipti á árinu 2006 og áfram og áfram.

Kær kveðja til ykkar allra og ósk um skemmtileg áramót.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Við áramót.

  1. Linda says:

    Gleðilegt ár
    Þar er ég sammála þér Ragna, um að góður sé þessi bloggvinahópur.. Þó svo að þú og ég höfum ekki „þekkst“ lengi, tel ég mig hafa eignast góðan bloggvin í þér..
    Og aldrei er að vita nema við hittumst á nýju ári. Alla vega er það ósk mín.

    Bestu þakkir fyrir frábæra innsýn í líf þitt með skemmtilegum frásagnarstíl..

    Ég óska þér og fjölskyldu þinni farsældar á komandi ári..

    Kær kveðja

  2. Ragna says:

    Að hitta bloggvini sína.
    Takk Linda mín. Ég bara hlakka til.

  3. Þórunn says:

    Gleðilegt ár
    Kæra Ragna, um leið og ég óska þér og fjölskyldu þinni gleði og góðra stunda á komandi ári, vil ég þakka fyrir allar góðu frásagnirnar þínar, ég segi eins og þú „það er fyrsta verkið á morgnana að kveikja á tölvunni og flakka á milli bloggvina til að vita hvort það hafa ekki einhverjir gullmolar bæst við á síðunum þeirra.
    Takk fyrir allt gott á líðandi ári. Kveðja frá okkur í Austurkoti

  4. Anna Sigga says:

    Takk fyrir knúsið!
    Elsku Ragna!
    Ég hef kannski ekki verið mjög dugleg að skrifa athugasemdir hér og ekki heldur staðið við það að kíkja í heimsókn til þín persónulega en ég heimsæki síðuna þína reglulega því það er gaman að lesa skrifin þín og myndirnar sem þú tekur eru algert augnkonfekt (eina konfektið sem ég má njóta, búin með kvótann af hinu fyrir lífið.) Farðu vel með þig!!!

  5. Gurrý says:

    Gleðilegt nýtt ár
    Bestu óskir fyrir nýja árið kæra netvinkona, það hefur létt lundina að fá að kíkja inní þinn heim á Íslandi, kærar þakkir. Kveðja frá Amman, Gurrý

  6. Svanfridur says:

    kvedja
    Elsku Ragna. Gledilegt ar og takk fyrir skemmtilg blogg kynni a lidnu ari. Hafdu thad sem allra best, SVanfridur

  7. afi says:

    Sæl Ragna og takk fyrir allar ánægjulegu stundirnar hérna á bloggsíðunni þinni. Gleðilegt bloggár.

Skildu eftir svar