Svo sem ekkert nýtt

Mikið var notalegt að finna hvað það var orðið hlýtt úti í morgun. Það hafði samt bætt í snjóinn í nótt því ég þurfti enn á ný að moka út að rennunum til að gefa fuglunum. Um miðjan daginn tók ég svo eftir því að  þeir sátu bara og voru ekkert að gogga ofan í rennurnar svo ég dreif mig út til að bæta í en sá þá að það var nóg af korni hjá þeim. Nú er ég að velta því fyrir mér hvort þeir séu orðnir svo stíðaldir að þeir geti ekki lengur flogið. Vonandi er þó ástæðan sú að þeim líðí vel hérna hvort sem þeir eru svangir eða ekki.

Talandi um svengd og mat þá hringdi Guðbjörg rétt fyrir hádegið og sagðist hafa búið til svo mikla kjötsúpu í gærkveldi að ég bókstaflega yrði að koma og hjálpa sér að grynnka eitthvað á afganginum. Ég var ekki lengi að falla fyrir freistingunni og dreif mig þegar í stað í þessa yndælis kjötsúpu, nammi, namm. Ég gerði svo meira en það, því ég rændi húsmóðurinni og fór með hana með mér niður í Sóltún. Hún er nefnilega að pússa upp barnarúm sem hún ætlar að mála og vinnuaðstaðan hans afa hérna í skúrnum er svo góð að það var tilvalið að koma bara með hafurtaskið með sér og vinna þetta hér. 

Nú eru allir fuglar flognir bæði þeir vængjuðu og hinir og ég ætla að gera aðra tilraun til þess að skrifa henni Þórunni netvinkonu minni. Þannig er nefnilega að um helgina byrjaði ég að skrifa henni og vistaði þær fáu línur sem komnar voru. Í gærkveldi ákvað ég svo að halda áfram og  var mjög dugleg og ánægð með mig að klára bréfið .  Ég átti svo bara eftir að setja kveðjuna undir þegar ég rak mig í eitthvað, eða ég veit hreint ekki hvað ég gerði, nema allt í einu var komin auð síða fyrir framan mig. Ég lokaði henni og þá kom hin síðan upp með því litla sem ég skrifaði um helgina – allt sem ég hafði skrifað í gærkvöldi var í burtu og horfið. Þegar svona kemur fyrir er alveg rosalega erfitt að byrja upp á nýtt en ég ætla nú samt ekki að gefast upp.  Ákvað þó að  afgreiða dagbókina mína fyrst.

————————–

Svo er að fylgjast með veðurspánni því ég á að mæta í þágu vísindanna í fyrramálið en ætla að fresta því þar til á föstudag ef spá morgundagsins er ekki hagstæð.

Ég bið ykkur vel að lifa og óska ykkur góðra stunda.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Svo sem ekkert nýtt

  1. afi says:

    Vel haldnir
    Það virðist augljóst að fuglana skortir ekkert hjá þér. Hefurðu prófað að gefa þeim korn blandað í matarolíu? Einkum gott í frosti. Skil þig vel með bréfið. Ekki ósvipað henti afa um daginn. Síðara bréfið varð ekki eins ítarlegt og hið fyrra.

Skildu eftir svar