Syndari góður.

Hefur það ekki komið fyrir ykkur að ætla að elda eitthvað sérstakt, þegar í ljós kemur að það sem á að nota er ekki við hendina?

Ég var ein heima hérna í gærkvöldi og var að hugsa um hvað ég ætlaði að borða í kvöldmatinn. Ég fékk þá óstjórnlega löngun til að búa til plokkfisk. Þetta var svo sterk löngun að það minnti mig á þegar maður gekk með börnin og fékk þá dillu um miðjan vetur að langa í ís með bláberjum, en þá voru bláber ekki flutt inn og ófáanleg með  öllu. Nú bara langaði mig rosalega í plokkfisk.

Hvað þarf maður að eiga í slíka matargeð? Jú, í jafninginn smjör, hveiti, mjólk og auðvitað lauk, soðnar kartöflur sem ég átti  og – já einmitt – FISK.  Humm,  ég átti sem sé allt í plokkfiskinn nema fisk. Nú voru góð ráð dýr og plokkfiskur var það eina sem mig langaði í þessa stundina. Ég fínkembdi frystinn, en enginn fannst fiskurinn og þó, ég fann nefnilega harðfiskpakkann hans Hauks og af því að sagan um naglasúpuna hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér þá sá ég strax þegar ég fór að hugsa um hvað hendi væri næst, að fiskur væri auðvitað alltaf fiskur, líka þó það sé búið að þurrka hann. Ég tók því harðfiskpakkann traustataki og tók eitt flakið úr honum og reif það út í plokkfiskjafninginn og þegar maturinn var kominn á diskinn malaði ég aðeins svartan pipar yfir og viti menn ljúffengari plokkfisk hef ég varla fengið. Þetta var svo gott að ég gleymdi að fá mér rúgbrauð og smjör með. Ummmm

En, það var eins gott að Haukur var ekki heima því ég hugsa að honum hefði fundist það jafnast á við guðlast að fara svona með harðfiskinn.  Nú þarf ég bara að safna kjarki til að játa fyrir honum syndir mínar.  En eitt er víst að ég naut syndarinnar.

—————————–

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Syndari góður.

  1. Svanfríður says:

    Er harðfiskur í alvörunni góður í plokkara? Ég trúi því alveg. Um leið og ég kaupi mér frosinn íslenskan fisk þá ætla ég að gera fiskibollur og ýmislegt annað góðgæti..mér þykir fiskur svo góður en hef ekki borðað hann heillengi núna því ég hef verið óheppin með að finna góðan fisk hérna, því miður. En gott að þú fékkst það sem þú vildir. Hafðu það gott, Svanfríður

  2. Ragna says:

    Kannski var hann svona góður af því að ég var svo ákveðin í því að þetta yrði gott. En í alvöru þá þótti mér þetta mjög góður plokkfiskur.

  3. Kolla says:

    Þetta var ekki svo galið hjá þér Didda mín. Þegar ég var barn í sveit hjá móðurbróður mínum í Breiðafjarðar-eyjum var soðinn harðfiskur (steinbíts ryklingur) oft á boðstólum, iðulega með söltuðu selspiki í viðbit! Næst þegar ég fæ harðfisk reyni ég uppskrift þína en verð trúlega sú eina sem borðar það.
    Kolla

  4. Ragna (Didda) says:

    Ýsa var það heillin sem ég reyndar notaði, en hver veit nema Steinbítsryklingur verði fyrir valinu næst ef hann leynist í einhverri skúffunni í frystinum.

  5. afi says:

    Syndin er sæt
    Harðfiskur, hmm, er það ekki bara þurrkaður fiskur. Ef eitthvað er þá bara heldur dýrari en nýr. Svo þetta hefur verið dýr-indis máltíð.

Skildu eftir svar