Fyrsta reynsla mín af hákarli.

Þegar ég las bloggið hennar Sigurrósar áðan um þorramatinn í Hlíðarskóla þá rifjaðist upp fyrir mér hvenær ég lærði að borða hákarl.

Hún Edda Garðars vinkona mín flutti ásamt fjölskyldu sinni í húsið á móti mér á Kambsveginum þegar ég var 9 ára. Ég hafði reyndar aðeins kynnst henni á meðan pabbi hennar  var að byggja húsið  því hún kom oft með honum.  Þegar þau síðan fluttu inn þá kom nýr og ferskur andblær í götuna og margt þótti mér forvitnilegt og spennandi  hjá þessari nýju vinkonu minni.

Fyrir það fyrsta var pabbi hennar lögga og hann keyrði okkur stundum í þrjúbíóið á sunnudögum í stóra svarta löggubílnum. Þetta var hreint ævintýri fyrir litlu stúlkuna á horninu.
Svo var hann í Karlakór Reykjavíkur og söng mikið  og bræður hans líka. Móður minni þótti gaman að hafa opinn glugga þegar þeir bræður voru saman hjá Garðari því þá ómaði karlakórssöngur yfir götuna.  Já þetta var allt mjög spennandi.
Síðan kom í ljós að hann átti hjall úti á Seltjarnarnesi þar sem hann verkaði hákarl og herti þorskhausa.

Ég man alltaf fyrst þegar Edda fór með mig niður í geymslu hjá þeim á Kambsveginum og sýndi mér eitthvert dökkt illa lyktandi flykki sem þar hékk og spurði mig, eins og ekkert væri sjálfsagðara, hvort ég vildi ekki smakka. Ég spurði í forundran hvað þetta væri. Hefurðu aldrei smakkað hákarl? Hún var alveg hissa  en bætti því við að  þetta væri rosalega góður glerhákarl og spurði aftur hvort ég vildi ekki smakka. Lyktin fannst mér hræðileg  en ég vildi ekki að þessari nýju vinkonu minni finndist ég vera einhver aumingi svo ég sagði já,já. Þessi fyrsti biti af hákarli fannst mér hræðilega vondur og auðvitað sá hún það á mér en sagði jafnframt að mér myndi bara finnast hann vondur fyrst en ef ég borðaði meira þá myndi mér fara að finnast hann góður. Ég gerði því eins og fyrir mig var lagt og viti menn hann varð betri og betri með hverjum bitanum og það er ekki að orðlengja það að síðan hefur mér fundist hákarl mjög góður þó aldrei finnist mér ég hafa fengið eins góðan hákarl og þarna á Kambsveginum forðum – kannski er það bara minningin sem er svo ljúf. 
Hún móðir mín var hinsvegar ekki mjög hrifin þegar ég kom heim úr þessari fyrstu hákarlareynslu minni, því hún tók um nefið og spurði hvar ég hefði eiginlega verið, ég gæti varla komið inn í hús því lyktin af mér væri svo hræðileg. En hún blessunin átti nú eftir að upplifa það oft og mörgum sinnum að  dóttirin bæri þessa lykt heim með sér því oft laumuðumst við Edda niður í geymsluna hjá henni til að fá okkur smá bita og svo annan.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Fyrsta reynsla mín af hákarli.

  1. Sigurrós says:

    Já, ég er bara greinilega ekki alveg jafnskrýtin og hún móðir mín 😉 hehe

  2. Svanfríður says:

    Hákarl er svo góður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kanarnir taka honum á komandi þorrablóti hér.

  3. afi says:

    Tepra
    Áður en lengra er haldið verður afi að játa það að hann borðar ekki hákarl. Að öðru leiti er afi mikið fyrir þorramat. Þó er erfitt að finna nógu súran mat nú orðið.

  4. Edda GG says:

    nammi, namm
    Didda mín, mikið var gaman að lesa þessar endurminningar, mér finnst mikill heiður af því að hafa kennt þér að borða hákarl, að mínu mati er maður ekki nema „hálfur“ Íslendingur ef maður kann ekki að borða hákarl!!og hana nú.

  5. Magnús Már says:

    Hálfir Íslendingar
    Ætli „afi“ viðkenni að hann sé bara hálfur Íslendingur, samanber það sem Edda segir? Hins vegar verða margir Íslendingar hálfir þegar þeir borða hákarl, því brennivínsstaupið er sjaldan langt undan. Gleðilegan Þorra.

  6. Hulla says:

    Vá…. eins og ég elska hákarl þá hata ég brennivín (íslensk)

  7. Ragna says:

    Hálfur og ekki hálfur
    Afinn á þessu heimili fær alltaf brennivínsstaupið mitt með hákarlinum á Þorrablótum. Af því að hann fær tvö þýðir það þá að hann verði ekki hálfur heldur fullur?

Skildu eftir svar